Hildur Harðardóttir hefur verið kjörin í stjórn Símafélagsins. Hún hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra samskipta- þróunar- og mannauðssviðs RÚV frá apríl 2014.

Hildur starfaði sem markaðsstjóri Borgarleikhússins á árunum 2010 - 2014 en starfaði áður m.a. í um áratug hjá The Futures Company, í London, fyrst sem ráðgjafi og síðar sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Hún er með BA-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í fjölmiðla- og samskiptafræðum frá London School of Economics og MBA-gráðu frá London Business School.

,,Við erum afar ánægð að fá Hildi til liðs við öflugan hóp stjórnarmanna Símafélagsins. Hún hefur mikla og góða reynslu af markaðsmálum og öðrum stjórnunarstörfum sem mun koma sér vel fyrir félagið. Það var að mínu mati heillavænlegt skref fyrir nokkrum árum að ráða aðeins utanaðkomandi faglega aðila í stjórn félags. Þeirri stefnu er viðhaldið með þessari ráðningu,” segir Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri Símafélagins.

Sigrún nýr stjórnarformaður

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, hefur verið kjörin stjórnarformaður Símafélagsins. Sigrún hefur verið almennur stjórnarmaður í félaginu undanfarið ár.

Stjórnina skipa auk Sigrúnar og Hildar þeir Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna, Hans Pétur Jónsson, fyrrverandi sölustjóri Opinna Kerfa, og Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.