Hildur Petersen, fyrrverandi stjórnarformaður Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (Spron), þarf ekki að endurgreiða manni fimm milljónir króna vegna kaupa hans á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Maðurinn keypti stofnfjárbréf Spron þegar viðskipti með bréfin voru heimiluð sumarið 2007 í aðdraganda skráningar sparisjóðsins í Kauphöll.

Mikil viðskipti voru með stofnfjárbréfin. Hlutabréf Spron voru skráð á markað haustið 2007 á genginu 16,8 krónur á hlut. Það féll viðstöðulítið frá upphafi og endaði saga sparisjóðsins með þeim hætti að Fjármálaeftirlitið tók hann yfir í mars árið 2009.

Stjórnarmenn seldu

Ári eftir skráninguna fóru margir þeirra sem keyptu bréfin að skoða hverjir höfðu selt þau á sínum tíma. Í ljós kom að 60% bréfanna höfðu áður verið í eigu stjórnarmanna Spron og maka þeirra og höfðu þau selt bréfin sumarið 2007. Öll voru þau talin búa yfir innherjaupplýsingum og selt stofnfjárbréfin fyrir háar fjárhæðir. Þar á meðal var Hildur Petersen.

Maðurinn kærði upphaflega sölu stjórnarmanna SPRON á stofnbréfunum til ríkissaksóknara fyrir um fjórum árum á þeim grundvelli að með sölunni hafi verið um fjársvik að ræða. Því var hins vegar vísað frá og málið ekki rannsakað frekar. Maðurinn fór því fram á að sala Hildar á stofnfjárbréfunum yrði rift. Hann tapaði málinu í héraðsdómi í október í fyrra. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í gær.