Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður og  frambjóðandi í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári, segist ætla að spyrja áleitinna spurninga um gildi þess að stuðla að framgangi Doha-viðræðnanna, nái hún kjöri. Hún segist jafnframt telja að sígildar kennisetningar frjálsrar verslunar fái ekki staðist á tímum alþjóðavæðingar.

Í viðtali við Clinton sem birtist í breska blaðinu Financial Times á dögunum, boðar hún nýja stefnu bandarískra stjórnvalda varðandi frjáls alþjóðaviðskipti. Hún segist ekki vera verndarsinni þegar kemur að alþjóðaviðskiptum en er á því að áframhald núverandi stefnu ríkisstjórnar George Bush komi ekki til greina. Bush-stjórnin hefur lagt mikla áherslu á fríverslun og hefur hún snúið sér að gerð tvíhliða- og svæðisbundinna fríverslunarsamninga í Asíu og Rómönsku-Ameríku, vegna þess hve lítið hefur þokast áfram í Doha-viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Demókratar hafa verið gagnrýnir á þessa stefnu og hefur Clinton meðal annars boðað að allir fríverslunarsamningar - þeirra á meðal Samningurinn um fríverslun í Norður-Ameríku (NAFTA) - verði endurskoðaðir.

Nánar er fjallað um málið í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.