Hillary Clinton, sem býður sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári, hélt sína fyrstu alvöru stefnuræðu í framboði sínu í dag. Þar lagði hún mesta áherslu á baráttu sína fyrir hærri launum hins venjulega Bandaríkjamanns.

Clinton sagði að hjól efnahagslífsins í Bandaríkjunum muni einungis snúast af fullum krafti ef laun millistéttarinnar hækkuðu jafnt og þétt í samræmi við laun stjórnenda og hagnað fyrirtækja.

„Ég trúi því að við þurfum að byggja upp hagkerfi vaxtar og sanngirni. Annað lifir ekki án hins,“ sagði Clinton í ræðu sinni í háskóla í Manhattan.

„Hagnaður fyrirtækja er nærri hámarki og Bandaríkjamenn eru að vinna meira en nokkru sinni fyrr, en launaseðlarnir hafa varla breyst að raunvirði.

Clinton var áður innanríkisráðherra Bandaríkjanna undir stjórn Barack Obama forseta og er hún einnig eiginkona Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta. Hún ætlar að greina betur frá stefnumálum sínum tengdum efnahagnum á næstu vikum.