Framboðsefnum í bandarísku forsetakosningunum var gert að skila inn gögnum um fjáröflun sína á fyrsta ársfjórðungi um helgina og kom upp úr krafsinu að Hillary Clinton stendur öðrum framar á þeim vettvangi með rúma tvo milljarða króna til notkunar í kosningabaráttunni, að því er kemur fram hjá BBC fréttastofunni.

Barack Obama er þó rétt á eftir henni og hafði safnað 1,7 milljörðum króna, en það sem eftirtektarvert er í þeim efnum er að á meðal þeirra sem styrktu Obama voru margir helstu bakhjarla Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta og eiginmanns Hillary.

Talsmenn Hillary Clinton segja að kosningasjóður hennar sé sá stærsti sem nokkur frambjóðandi hafi nokkurn tíma tryggt sér. Hluti upphæðarinnar, eða 655 milljónir króna, kemur úr kosningasjóði hennar úr öldungardeildarþingskosningu síðasta árs. Hins vegar eru 450 milljónir króna í sjóðnum sem henni er aðeins heimilt að nota í aðalkosningunni ef hún ber sigur úr býtum í forkosningunni. Hún hefur þegar þegar eytt um 330 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Kosningastjóri Clinton, Patti Solis Doyle, segir að niðurstöðurnar endurspegli þann gríðarlega stuðning sem Clinton njóti meðal almennings.


Obama aflaði sér 1,7 milljarða króna, sem utan 65 milljóna króna má nota í forkosningunni. Hann hefur eytt 430 milljónum króna á fjórðungnum. Þetta þýðir að Obama stóð sig í raun og veru betur í fjáröfluninni fyrir forkosningarnar með 1,6 milljarða króna, samanborið við 1,25 milljarða hjá Clinton. Sérfræðingum ber saman um að árangur hans verði að teljast stórfenglegur, þar sem hann teljist nýgræðingur í stjórnmálum og var nánast óþekktur fyrir skömmu síðan. Talsmenn kosningabaráttu Obama, segja að þessar niðurstöður endurspegli vilja fólksins um nýja tegund stjórnmálamanna.

Í frétt International Herald Tribune segir að svo virðist sem Hillary geti ekki sótt beint í fjáröflunarleiðir eiginmanns síns, þar sem að margir stuðningsmanna hans styðji nú Obama. Að minnsta kosti sex aðilar sem styrktu Obama voru gestir Clinton hjónanna í Hvíta húsinu í stjórnartíð eiginmanns hennar og tveir þeirra munu hafa verið það nánir hjónunum að þeir fengu gistingu í Lincoln svefnherberginu. Um tólf stuðningsmanna Obama munu hafa verið stórir styrktaraðilar Bill Clinton og að minnsta kosti fjórir munu hafa starfað í stjórn hans. Einn þeirra er sonur fyrrverandi fjármálaráðherra í stjórn Clintons, Robert Rubin. Rúmlega tuttugu stærstu styrktaraðilar Obama lögðu fé í kosningasjóði Hillary vegna framboðs hennar á öldungardeildarþing eða annarra verkefna hennar, og sumir þeirra fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan.

Aðrir frambjóðendur Demókrataflokksins standa ekki eins vel að vígi og Clinton og Obama, en John Edwards hefur til umráða 700 milljónir króna í forkosningunum, en innan við 65 milljónir fyrir aðalkosningarnar og öldungardeildarþingmaðurinn Chris Dodd mun hafa 490 milljónir króna í kosningasjóði sínum.


Frambjóðendur Demókrataflokksins stóðu sig talsvert betur en frambjóðendur Repúblikanaflokksins, en fyrir hverja fimm Bandaríkjadali sem repúblikar söfnuðu, söfnuðu demókratar átta dölum. Mitt Romney, sem er fyrrverandi fylkisstjóri Massachussetts, safnaði 720 milljónum króna, en hann hefur þegar eytt um helmingi þeirrar upphæðar. Fyrrum borgarstjóri New York borgar, Rudolph Giuliani, hefur einnig safnað rúmlega 720 milljónum króna. Öldungardeildarþingmaðurinn John McCain safnaði 850 milljónum króna, en hefur eytt 64% þeirrar upphæðar.