Útlit er fyrir að endurfjármögnun tveggja lána Hafnarfjarðarbæjar hjá þýsk-írska bankanum Depfa ljúki í þessum mánuði. Ekki verða lánin þó framlengd, enda er Depfa í slitameðferð eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu, heldur munu innlendar fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir lána bæjarsjóði. Þetta hefur Morgunblaðið eftir Guðmundi Rúnari Árnasyni, bæjarstjóra.

Aðspurður um árshlutauppgjör bæjarins sem kom út á dögunum segir Guðmundur að afkoman fyrir fjármagnsliði sé góð og sýni að bærinn geti staðið undir lánum sínum til lengri tíma.