Heimsmarkaðsverð á áli hefur hækkað mikið upp á síðkastið. Nýverið fór það yfir 2.000 Bandaríkjadali á tonnið og hefur álverð ekki verið jafn hátt síðan í nóvember 2014. Álverð hefur hækkað mest eða um 20% af helstu hrávörum á árinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umfjöllun Hagfræðideildar Landsbankans um málið.

Áhrif Kína

Síðustu daga hefur verðið hækkað nokkuð hratt og að er það aðallega vegna þess að stjórnvöld í Kína hafa í meira mæli en áður verið að loka fjöldaframleiðslueininga í landinu til að draga úr ólöglegri og mengandi álframleiðslu. Eins og sakir standa er um 60% af heimsframleiðslunni í Kína. Hægt er að lesa frétt Reuters um áhrif kínverskra framleiðenda á álverð hér. Þar segir meðal annars að stærsti álframleiðandi heims, kínverska fyrirtækið Hongqiao Group hafi ákveðið að draga úr framleiðslu á 2 milljónum tonna af áli á þessu ári.

Enn er talsvert offramboð á áli í Kína. Boðaðar lokanir á ólöglegum framleiðslueiningum ættu að draga úr framboði þar í landi og þar með á heimsvísu sem gæti leitt til enn frekari verðhækkana á áli á næstu misserum. Einnig virðist sem að eftirspurnin eftir áli muni taka við sér.

Meðalverðið 1.600 Bandaríkjadali í fyrra

Í ítarlegri umfjöllun Viðskiptablaðsins í mars á þessu ári var fjallað um það að þá hafi meðalverð á áli fyrir árið staðið í 1.900 Bandaríkjadölum - en nú hefur verið hækkað enn frekar eða upp í 2.000 Bandaríkjadali. Meðalverðið á áli í fyrra var til að mynda 1.600 Bandaríkjadalir á tonnið, samkvæmt tölum frá London Metal Exchange (LME).

Í þeirri umfjöllun kom meðal annars fram að áhrif Kína leiddu til þess að álverð lækkaði talsvert - en frá árinu 2010 og til ársins 2015 tvöfölduðu Kínverjar næstum því framleiðslu á ári, og eins og kemur fram hér að ofan er markaðshlutdeild Kína um 60% á álmarkaði. Önnur ástæða sem nefnd var sem gæti haft áhrif á þróunar álverðs er að eftir að Donald Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna hafi trú á iðnaðarframleiðslu í Bandaríkjunum aukist.