Hilma Ósk Hilmarsdóttir og Viktor Marinó Alexandersson hafa verið ráðin til starfa á lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners. Lögmannsstofan sinnir fjölbreyttum verkefnum á sviði lögfræði. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu.

,,Við erum ánægð og spennt að fá þau Hilmu og Viktor til starfa hér á stofunni og bjóðum þau hjartanlega velkomin. Markmið okkar er að veita viðskiptavinum faglega og vandaða lögfræðiþjónustu, bæði einstaklingum og fyrirtækjum hér á landi sem og erlendis," segir Sævar Þór Jónsson, aðaleigandi stofunnar.

Fram kemur í tilkynningunni að sérhæfing Hilmu sé heilbrigðisréttur, kröfuréttur, barnaréttur, skaðabótaréttur og félagaréttur. Hilma útskrifaðist með Master frá Háskólanum í Reykjavík árið 2019. Hún starfaði áður hjá lögmannsstofunni Réttur Aðalsteinsson & partners.

Viktor er laganemi við Háskóla Íslands en hann stefnir á að útskrifast næsta vor. Fyrirhuguð sérhæfing hans er réttarfar, vinnuréttur, félagaréttur, eignaréttur og stjórnsýsluréttur.