Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, segir ekkert fararsnið á sér þrátt fyrir að hafa selt fyrirtækið til suður-kóreska leikjaframleiðandans Pearl Abyss, en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu í ríflega tuttugu ár. „Ég vinn við að búa til tölvuleiki,“ segir Hilmar og hlær.

„Maður fær ekkert leiða á því. Þetta er risastórt samfélag í örum vexti og þróun eins og fyrirtækið. Ég hef ekki verið í skemmtilegri vinnu,“ bætir Hilmar við.

Gætu orðið fyrst í Kína

Hilmar varð af um hátt í tveimur milljörðum króna þar sem árangurstengdur hluti kaupverðsins náðist ekki. Ástæðan er fyrst og fremst að útgáfu EVE Online í Kína og út farsímaleiksins EVE Echoes tafðist. Leyfi fyrir tölvuútgáfu EVE Online í Kína fékkst síðasta sumar og Eve Echoes kom út á heimsvísu í ágúst í fyrra. Þá fékk EVE Echoes útgáfuleyfi í Kína fyrr í febrúarmánuði.

Sjá einnig: Seljendur CCP urðu af 26 milljörðum

Ástæða tafanna var meðal annars að CCP skipti um samstarfsaðila í Kína sem þýddi að sækja þurfti um nýtt leyfi fyrir leikinn og að kínversk yfirvöld gáfu ekki út nein ný leikjaleyfi í tæp tvö ár.  Því var töluvert átak að fá leyfin. Ríkisstjórnin og íslenska utanríkisþjónustan áttu þátt í að greiða götu CCP fyrir kínverskum stjórnvöldum. Hilmar þakkar sérstaklega Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð, ráðherra iðnaðar, ferðamála og nýsköpunar, fyrir að tala máli fyrirtækisins.

Eftir að leyfið fékkst sé staða CCP hins vegar sterk í Kína. „Við erum líklega í einstakri stöðu,“ bendir Hilmar á. CCP kann að verða fyrsta erlenda leikjafyrirtækið til að gefa út leik fyrir bæði farsíma og tölvur í Kína. „Það er stórt verkefni að koma farsímaleiknum á Kínamarkað. Markmiðið er að það takist á þessu ári.“

Starfsmönnum CCP fjölgar

CCP tilkynnti einnig í desember að félagið ynni að útgáfu skotleiks sem gerist í EVE-heiminum. Vegna aukinn umsvifa voru tæplega 60 nýráðningar hjá CCP í fyrra og til stendur að ráða í a.m.k. 25 störf til viðbótar hér á landi á þessu ári. Í lok árs er ráðgert að um 270 manns starfi í nýjum höfuðstöðvum CCP í Grósku í Vatnsmýrinni, sem fyrirtækið flutti í á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .