Dómur féll í máli Flugstoða ohf. gegn Hilmari Friðriki Foss í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 9. maí síðastliðinn.

Flugstoðir ohf. héldu því fram að vörumerkjaskráning Hilmars á vörumerkinu ICEAVIA væri ógild. Hilmar hafði fengið vörumerkið skráð hjá Einkaleyfastofu 23. janúar 1992 og hafði það verið endurnýjað 23. ágúst 2002.

Ætluðu Flugstoðir ohf. að skrá vörumerkið ICEAVIA hjá Einkaleyfastofu. Var vörumerkinu ætlað að auðkenna svipaða þjónustu og vörumerki Hilmars Friðriks Foss hafði verið skráð fyrir.

Reistu Flugstoðir kröfu sína á því að skráning Hilmars væri niður fallin fyrir notkunarleysi. Taldi Héraðsdómur að Hilmar hefði sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að vörumerkið væri enn í notkun. Lagði Hilmar fram viðeigandi gögn máli sínu til stuðnings og auk þess studdi framburður vitna mál hans.

Niðurstaða Héraðsdóms var því sú að Hilmar Friðrik Foss væri sýkn af kröfum Flugstoða ohf. og heldur hann áfram vörumerkinu ICEAVIA. Var Flugstoðum að auki gert að greiða Hilmari 400.000 kr. í málkosnað.

Aðspurður um málið segir Hilmar það afar skrýtið þegar brotamaður stefnir fórnarlambi. Flugstoðir hefðu tekið upp vörumerki sitt án þess að hafa samband við sig og kveðst hann því una niðurstöðu dómsins.

Hjá Einkaleyfastofu fengust þær upplýsingar að mál sem þetta komi reglulega upp hér á landi. Ekki rata þau öll til dómstóla en áfrýjunarnefnd Einkaleyfastofu úrskurðar í sumum tilfellum um málin.

Úrskurðirnir voru 14 talsins árið 2007 en 22 árið 2006. Þess má geta að árið 2007 rötuðu 3 vörumerkjamál alla leið til Hæstaréttar.