Hilmar Veigar Pétursson
Hilmar Veigar Pétursson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við höfum gert mistök í gegnum tíðina. Það er ekki sjálfgefið að allt hafi gengið upp. Við fórum í mikla hreingerningu hjá okkur og tókum þá ákvörðun að taka þetta eins djúpt og hægt væri til að vera tilbúin fyrir framtíðina,“ segir Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP.

Fyrirtækið tapaði 21,3 milljónum dala í fyrra, jafnvirði 2.386 milljóna íslenskra króna. Þetta er talsverður viðsnúningur eftir 4,6 milljóna dala hagnað árið 2012. Fram kemur í uppgjöri CCP að tapið er til komið vegna aukinna afskrifta og niðurfærslu óefnislegum eignum. Niðurfærslan hafi ekki áhrif á fjárstreymi félagsins. Ef horft er framhjá afskriftum lítur efnahagsreikningurinn þokkalega út. Tekjur námu 76,7 milljónum dala miðað við 65,3 milljónir árið 2012 og jafngildir það 17,5% aukningu á milli ára.

Höfum stundum farið fram úr okkur

Hilmar var staddur á skrifstofum CCP í Atlanta í Bandaríkjunum þegar hann ræddi um uppgjör fyrirtækisins við VB.is í dag. Hann segir afskriftirnar öðru fremur tengjast uppsöfnuðum þróunarkostnaði yfir nokkurra ára tímabil.

Spurður hver mistökin hafi verið sem Hilmar vísar til segir hann:

„Við höfum haft margar nálganir á það hvernig við höldum utan um þróunarvinnu hjá fyrirtækinu. Það er orðið mjög stórt og umfangsmikið. Og stundum höfum við farið fram úr okkur eins og við gerðum árið 2011. Þá gerðum við uppfærslum á EVE Online sem féllu ekki í góðan jarðveg og gerðum breytingar á starfsemi fyrirtækisins í kjölfar þess. Við höfum gert töluvert miklar breytingar á vöruþróun hjá okkur. Hluti af því var að fara yfir hvað við höfum safnað mikið upp í eignfærðum þróunarkostnaði síðustu árin. Við skoðuðum niður í kjölinn hvað á erindi við framtíðina,“ segir hann. Annað var afskrifað.