Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, hefur verið kjörinn stjórnarformaður IGI, sem eru samtök leikjaframleiðenda á Íslandi, en kjörið fór fram á aðalfundi samtakanna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Alls eru fyrirtæki innan IGI tíu talsins og nemur velta þeirra yfir 9 milljörðum króna á ári. Spurður um áherslumál IGI á þessu ári segir Hilmar Veigar leikjaframleiðsluiðnaðinn ekki flokkast sem dæmigerðan iðnað.

„Veltutölur iðnaðarins eru háar en fyrirtækin fá. En þar með er ekki öll sagan sögð,“ segir Hilmar og bætir því við að skortur á hæfu starfsfólki hamli vexti greinarinnar.

„Ef þetta fólk er ekki til hér, þá verðum við að fá það erlendis frá. Af þessu verður útlendingalöggjöfin að taka mið og bjóða upp á hraðari afgreiðslu leyfanna. Við þurfum að stuðla að því að gera Ísland aðlaðandi fyrir þessa erlendu sérfræðinga og þar skipta skattaafslættir fyrstu starfsárin miklu máli eins og Danir hafa verið að gera með góðum árangri.“

Aðrir sem kjörnir voru í stjórnina eru þau Ólafur Andri Ragnarsson, stjórnarmaður Betware, Burkni Óskarsson, framkvæmdastjóri Lumenox, Eldar Ástþórsson, fjölmiðlafulltrúi CCP, Stefán Álfsson, forstjóri Jivaro, Stefán Gunnarsson, forstjóri Soldid Clouds og Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, forstjóri Locatify.