Hilmar Bragi Janusson verður framkvæmdastjóri Iðunnar, nýs framtakssjóðs á vegum eignarstýringar Kviku banka, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Sjóðurinn mun meðal annars sérhæfa sig í fjárfestingum í líftæknifyrirtækjum en unnið er að því að fjármagna í sjóðinn.

Hilmar hefur verið framkvæmdastjóri líftæknifyrirtækisins Genís á Siglufirði frá árinu 2017. Þá sat hann jafnframt í stjórn líftæknifyrirtækisins Kerecis á árunum 2015-2019.

Árið 2012 varð Hilmar forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ en þá hafði Hilmar starfað í tuttugu ár hjá Össuri, og leiddi meðal annars rannsóknar og þróunarstarf fyrirtækisins.