*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 2. mars 2020 16:11

Hilmar Veigar fjárfestir í The One

Fjárfestar setja 27 milljónir í íslenska stefnumóta-appið The One, meðal annars forstjóri og fyrrum stjórnarmaður í CCP.

Ritstjórn
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, er einn þeirra fjárfesta sem komið hafa með nýtt hlutafé inn í íslenska stefnumótaappið The One.
Aðsend mynd

Sprotafyrirtækið The One, sem gefur út samnefnt stefnumóta-app hefur lokið tæplega 30 milljóna króna fjármögnun. Meðal nýrra fjárfesta í The One eru Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Sigurður Ólafsson, fyrrum stjórnarmaður CCP, og Ville Laakso, finnskur fjárfestir.

Er þetta önnur fjármögnun félagsins á skömmum tíma, en The One tók inn 15 milljónir í fjármagn fyrir rúmu hálfu ári síðan, en nýja féð tryggir rekstrargrundvöll fyrirtækisins út árið 2020.

Stefnumótaappið The One leggur áherslu á að notendur fái tækifæri til að kynnast, en það hefur tekið miklum breytingum frá því að það kom út fyrir um hálfu ári síðan.

„Á valentínusardaginn, 14. Febrúar síðastliðinn, gáfum við út stóra uppfærslu og núna vorum við að loka annarri fjármögnunarlotu með nýjum og núverandi fjárfestum. Lotan nemur tæplega 30 milljónum og tryggir félaginu áframhaldandi rekstur og þróun út árið 2020.” segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri The One.

 „Árið fer mjög vel af stað fyrir The One, nýja uppfærslan virðist vera að slá í gegn meðal notenda okkar og er ýmislegt spennandi á döfinni næstu vikur og mánuði.“ segir Davíð.