Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP, var endurkjörinn formaður á aðalfundi Samtaka íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) á fimmtudag í síðustu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUT.

Þrír meðstjórnendur sem sitja áfram eru Daði Friðriksson, Tölvumiðlun, Sigrún Eva Ármannsdóttir, Skýrr og Jón Kristjánsson, Menn og mýs. Nýir meðstjórnendur kosnir til tveggja ára eru Hrannar Erlingsson, Maritech, Magnús Norðdahl, LS Retail og Ágúst Einarsson, EMR.

Í ársskýrslu SUT kom fram að unnið hefði verið að fjölmörgum brýnum verkefnum á Ári nýsköpunar. Þar á meðal eru þátttaka í klasaverkefnum á sviði mennta- heilbrigðis- og orkumála með áherslu á „betri þjónustu fyrir minna fé“ og aðkomu SUT að UT-messunni sem haldin verður í annað sinn fimmtudaginn 9. febrúar á næsta ári.

Tilgangur hennar messunnar er að vekja athygli á mikilvægi upplýsingatækni og áhrifum hennar á einstaklinga, fyrirtæki og íslenskt samfélag.