Hilton hótelkeðjan áætlar nú að bæta við allt að 300 hótelum í Asíu á næsta áratug en félagið rekur nú 47 hótel í heimsálfunni.

Wall Street Journal (WSJ) greinir frá því að hótelkeðjan sjái mikil tækifæri í vaxandi markaði í Asíu en samkvæmt frétt blaðsins fara bæði viðskipta- og skemmtiferðir til álfunnar sívaxandi.

Þá hefur WSJ eftir Chris Nassetta, forstjóra Hilton að samdráttur í Bandaríkjunum hafi haft slæm áhrif á hótel keðjunnar þar í landi þar sem fólk hefur dregið úr ferðalögum.

„Við sjáum fyrir okkur að Asíu markaðurinn komi til með að vaxta gífurlega á næstu árum og höfum því fulla trú á því að reisa þar flott og góð hótel,“ hefur blaðið eftir Nassetta.

Nú þegar liggja fyrir drög um að reisa 75 hótel á Indlandi á næstu fimm árum en Hilton hefur í samstarfi við eitt stærsta fasteignafélag þar í landi, DLF keypt jarðir og fasteignir til að reisa hótelin.

Þá liggja fyrir drög um að reisa 18 hótel í Kína á næstu fjórum árum en keðjan rekur þar fimm hótel nú.

Einn helsti samkeppnisaðili Hilton, Starwood Hotels rekur nú 136 hótel í Asíu og hefur þegar gert áætlun um að reisa 95 til viðbótar og eru framkvæmdir hafnar á flestum þeirra samkvæmt WSJ.

Þá rekur Mariott hótelkeðjan 85 hótel í Asíu (reyndar að Hawaii meðtöldu) og áætlar að reisa um 80 hótel til viðbótar á næstu 5 árum.