Hilton Food Group hefur hafið viðræður um kaup á Icelandic Seachill, sem er dótturfélag Icelandic Group að því er fram kemur í Undercurrent News. Hilton er einn af birgjum Tesco stórverslunarkeðjunnar, og er talið að kaupin séu gerð með vitund og stuðningi verslunarkeðjunnar.

Icelandic Group er í eigu Framtakssjóðs Íslands sem er í eigu lífeyrissjóðanna, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um hætti íslenskur fjárfestahópur við kaup á Seachill.

Hilton Food Group sérhæfir sig í sölu á rauðu kjöti, en um 74% af framleiðslumagni félagsins er framleitt og selt utan Bretlands. Fyrir utan heimalandið, er félagið með starfsemi eða samstarfsverkefni í sjö löndum, það er Hollandi, Ástralíu, Póllandi, Danmörku, Svíþjóð og Írlandi. Einnig stefnir félagið að uppsetningu starfsemi í Portúgal.

Mikið samstarf við Tesco

Greinendur segja fyrirtækið sem hingað til hefur sérhæft sig í pökkun og vinnslu á kjöti einungis geta farið út í slíka stækkun nema í samstarfi við sterkan söluaðila, eins og Tesco er.

Með kaupunum yrði félagið eitt af 10 stærstu matvælafyrirtækjum Bretlands, en á árinu 2016 nam velta Hilton Food Group 1,23 milljarða punda og var félagið með EBITDU sem samsvarar 54 milljónum punda, eða 7,45 milljörðum íslenskra króna. Ebitdu hlutfall félagsins nam 4,4%.

Seachill hins vegar seldi fyrir 266,3 milljón punda, en EBITDA félagsins var 10,4 milljón punda, eða 1,4 milljarðar íslenskra króna. EBITDU hlutfallið var 3,9%.