Auglýsingastofan Himinn og haf verður hluti af TBWA, alþjóðlegu neti auglýsinga­stofa með höfuðstöðvar í New York. Nafn stofunnar breytist í TBWA\Reykjavík föstudaginn 26. október.

Auglýsingastofan tekur upp alþjóðlega starfshætti TBWA, en þeir felast meðal annars í frísklegri og róttækri nálgun viðfangsefna, til að ná hámarksárangri fyrir viðskiptavini.

Alls eru 292 auglýsingastofur í 78 löndum innan TBWA keðjunnar og starfsmenn tæplega 10 þúsund. TBWA stofurnar vinna náið saman, meðal annars að markaðsssetningu heimsþekktra vörumerkja. Meðal þeirra eru Nissan, Absolut, McDonalds, Apple, Adidas, Sony PlayStation, Singapore Airlines, Michelin, Henkel, Samsonite og Standard Chartered.

TBWA\Reykjavík mun einkum þjóna viðskiptavinum hér á landi. Sem hluti af TBWA keðjunni getur TBWA\Reykjavík jafnframt haldið utan um markaðss­etningu íslenskra fyrirtækja erlendis. Ennfremur mun TBWA\Reykjavík sjá um verkefni hér á landi fyrir ýmsa erlenda viðskiptavini TBWA.

Ein meginástæða þess að Himinn og haf ákvað að ganga til liðs við TBWA er sú aðferðafræði sem beitt er innan keðjunnar til að kalla fram betri og áhrifaríkari auglýsingahugmyndir. Hún kallast “disruption,” sem útleggst “röskun” á íslensku. Þessi aðferðafræði hefur hjálpað auglýsingastofum innan TBWA keðjunnar að ná firna góðum árangri fyrir viðskiptavini um allan heim. Það sést meðal annars á þeim fjölda alþjoðlegra verðlauna sem stofurnar hafa fengið. Til dæmis hefur TBWA\Paris fjögur ár í röð fengið gullna ljónið sem besta auglýsingastofan á auglýsingahátíðinni í Cannes.

Aðferðafræði TBWA byggir á því að skilgreina viðteknar venjur, í þeim tilgangi að forðast stöðnun, skerpa sýn og beita skipulagðri röskun til að laða fram hugmyndir um nýjar og árangursríkar lausnir. Þrautreyndum aðferðum er beitt til að laða fram árangursríkar hugmyndir með aðferðafræði röskunar. Annars vegar er ýmsum aðferðum beitt innanhúss í þessu skyni og hins vegar hefur TBWA þróað hugmynda­smiðju (workshop), þar sem fulltrúar auglýsingastofunnar og viðskiptavinarins hittast og vinna sameiginlega að niðurstöðu.

Aðferðafræði röskunar nýtist til að takast á við flestar þær áskoranir sem blasa við vörumerkjum og fyrirtækjum. Aðferðafræðin takmarkast þannig ekki við markaðssetningu og samskipti, heldur má beita henni til að koma starfseminni upp úr hjólförunum á flestum sviðum. Röskun er því andstæða stöðnunar.

TBWA var útnefnt “Global Agency of the Year 2006” af tímaritinu AdWeek. TBWA fékk sams konar viðurkenningu frá tímaritinu Advertising Age árið 2004. Auglýsingastofur TBWA hafa hlotið fjölda viðurkenninga í gegnum tíðina á verðlaunahátíðum Effie, Golden Globe, ADC, Clios og Cannes.

TBWA\Reykjavík er í eigu Eiríks Aðalsteinssonar og fjölskyldu. Eiríkur er framkvæmda­stjóri stofunnar en aðrir helstu starfsmenn eru Guðmundur Pálsson rekstrarstjóri, Sævar Sigurgeirsson hugmyndastjóri, Tryggvi Tryggvason hönnunarstjóri og Lilja Víglunsdóttir fjármálastjóri.