Kosningar og myndun ríkisstjórna er sú tíð þar sem stjórnmálafræðingar njóta sín hvað best, enda eru þeir iðulega fengnir til að spá í spilin, greina stöðuna og gefa sitt faglega akademíska álit.

Ekki vilja Hrafnarnir gera lítið úr stjórnmálafræðingum, en oftar en ekki eru skýringar þeirra á stöðu mála nokkuð yfirborðskenndar og gefa litla innsýn inn í raunveruleika stjórnmálanna. Það er að mörgu leyti skiljanlegt enda er slegist um hugmyndafræði stjórnmálanna innan akademíunnar, á meðan raunveruleiki stjórnmálanna nær lítið út fyrir sali Alþingis og ráðuneyta.

Að því sögðu glottu Hrafnarnir út í annað þegar Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur við Háskóla Íslands, fór yfir stöðu mála í samtali við mbl.is í vikunni og komst að þeirri niðurstöðu að erfitt væri að spá fyrir um langlífi nýrrar ríkisstjórnar, hún gæti lifað út kjörtímabilið eða lengur, en það væri allt eins líklegt að menn gæfust upp fyrr. Þá vitum við það.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 12. janúar 2017. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .