Mannorð breska smásölukóngsins Philip Green er í henglum eftir að þingnefnd þar í landi fór yfir viðskiptahætti hans við rekstur, sölu og gjaldþrot á verslanakeðjunni BHS. Nú þegar er til athugunar að svipta hann riddaranafnbótinni fyrir vikið, en ýmis embætti ríkisvaldsins önnur munu vafalaust vilja kanna umsýslu þessa þekkta kaupahéðins nánar.

Þingnefndin kvað upp úr um það á mánudag, að Sir Philip Green hefði „auðgast ótrúlega“ á kostnað starfsmanna og eftirlaunaþega BHS, en afrakstur hans og fjölskyldunnar næmi liðlega milljarði sterlingspunda, jafnvirði um 215 milljarða íslenskra króna.

Nefndarmenn voru ómyrkir í máli um að þar að baki hefði búið taumlaus græðgi Sir Philips og lafði Tinu Green, blandin fullkomnu skeytingarleysi um hagsmuni annarra. Þau hjón hefðu gengið einstaklega langt í að firra sig skattgreiðslum á sama tíma og fyrirtækið hefði verið mergsogið svo ákaflega, að þrot bæði þess og eftirlaunasjóðs starfsmanna þess, hefðu orðið óhjákvæmileg.

Útfararstjóri óskast

Þegar hrunið blasti við snemma á liðnu ári – skuldir um £1,3 milljarðar, þar af um þriðjungur í lífeyrisskuldbindingar – gerði Green ekki minnstu tilraun til þess að bjarga fyrirtækinu, laga hræðilega stöðu lífeyrissjóðsins eða annað af því taginu. Þess í stað seldi hann fyrirtækið til lukkuriddara fyrir eitt sterlingspund.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.