Stefndu, Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Pálmi Haraldsson og þrír fyrrverandi starfsmenn Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, Rósant Már Torfason og Guðný Sigurðardóttir, hafa frest til 1. júní til þess að skila inn greinargerðum vegna máls skilanefndar Glitnis gegn þeim. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Í stefnu skilanefndar Glitnis eru stefndu sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008.

Í stefnunni er því meðal annars lýst hvernig að Jón Ásgeir, Lárus og Gunnar Sigurðsson, þáverandi forstjóri Baugs, hefðu fundað um möguleg kaup Glitnis á 22,8% hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, í Aurum, sem átti meðal annars skartgripakeðjuna Goldsmiths. Glitnir átti þá að kaupa hlut Pálma á sex milljarða króna, en í bókhaldi Fons var umræddur hlutur metinn á 1,4 milljarða króna nokkrum mánuðum áður. Snúningurinn átti auk þess að tryggja Pálma 2,2 milljarða króna í „cash“.

Stefndu Jón Ásgeir, Lárus og Pálmi, hafa allir mótmælt stefnunni og sagt hana ekki á rökum reista.