Í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á lögum um tekjuskatt er að finna tvær mikilvægar breytingar. Annars vegar verður 20/50 reglan svokallaða um skattlagningu arðs úr einkahlutafélögum afnumin og hins vegar verða gerðar veigamiklar breytingar á því hvernig hagnaður af uppgjöri afleiðusamninga verður skattlagður.

Hvað fyrstu breytinguna varðar þá var tekjuskattslögunum breytt árið 2009 og ný regla tekin upp um skattskyldan arð. Í henni felst að ef heimil arðsúthlutun úr hlutafélagi eða einkahlutafélagi fer samtals yfir 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé viðkomandi félags telst það sem umfram er til helminga laun og arður, þegar móttakanda hans ber stöðu sinnar vegna að reikna sér endurgjald. Með öðrum orðum þá ber að skattleggja sem laun helmings arðs, sem er umfram 20% af bókfærðu eigin fé félags, ef sá sem tekur við arðinum er í þeirri stöðu að þurfa að reikna sér endurgjald.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að reglan hafi ekki reynst sem skyldi og tekur Gunnar Egill Egilsson, lögmaður hjá Nordik lögfræðiþjónustu, undir það. „Töluvert hefur verið rætt um að fólk hafi hætt að greiða arð úr félögum og því hafi fjármagn safnast upp í félögum, sem annars hefði verið betur nýtt annars staðar. Heilt yfir held ég þó að þetta hafi ekki komið mjög að sök vegna þess hve rekstur íslenskra fyrirtækja hefur verið erfiður undanfarin ár, en reglan hefði orðið alger dragbítur á komandi árum, enda verður maður að gera ráð fyrir því að rekstrarumhverfið fari nú batnandi.“

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.