Í stað þess að spyrja okkur að því hvort við þurfum að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi gætum við spurt okkur að því hvort skynsamlegt sé að halda krónunni. Stutta svarið við þeirri spurningu er nei.

Þetta sagði Manuel Hinds, fyrrverandi fjármálaráðherra El Salvador, á fundi VÍB um einhliða upptöku annars gjaldmiðils sem fram fór í morgun. Hinds var sem kunnugt er ráðgjafi stjórnvalda þegar El Salvador tók um Bandaríkjadal sem lögeyri árið 2001.

Hinds sagði algengt að Seðlabankar notuðu þá gjaldmiðla sem þeir hefðu til umráða til að hafa áhrif á hagkerfið, t.d. með því að hækka og lækka stýrivexti. Það væri þó ekki tilgangur gjaldmiðla.

Í erindi sínu fjallaði Hinds um gjaldmiðlamál m.t.t. alþjóðavæðingar. Hann benti á að íslenska hagkerfið væri álíka stórt og 1/10 af hagkerfi New York. Að hafa sinn eigin gjaldmiðil í núverandi heimsmynd væri eins og að hafa sér gjaldmiðil á nokkrum götum á Manhattan. Þá spurði Hinds fundargesti hvort þeir héldu að gæfi frekar eftir þegar á reyndi, peningastefna seðlabanka í litlu hagkerfi eða alþjóðavæðingin í heild sinni.

Þá sagði Hinds að reynslan væri sú að um leið og seðlabankar landa reyni að hafa óeðlilega mikil áhrif á hagkerið, t.d. með hækkun stýrivaxta, væri tilhneigingin sú að fólk og fyrirtæki nýttu sér frekar aðra gjaldmiðla. Hann minnti á að Íslendingar hefðu reynslu af þessu, t.d. hefðu bæði fólk og fyrirtæki tekið lán í erlendum myntum þegar vaxtastig krónunnar var sem hæst fyrir tilstuðlan Seðlabankans.

Hins fjallaði í stuttu máli um reynsluna af því að dollaravæða El Salvador. Hann sagði vaxtastig hafa minnkað og stöðugleika hafa aukist. Í fyrirspurnartíma sagði Hinds að það hefði ekki reynst dýrt að taka upp dollar sem lögeyri og minnti á að við upptöku annars gjaldmiðils þyrfti eingöngu að skipta út lausafé í umferð, sem væri aðeins örlítill hluti af hagkerfinu eða peningaupphæðum í heild sinni. Hann sagði að vaxtastig krónunnar yrði alltaf hærra en annarra gjaldmiðla, þannig að Íslendingar yrðu að sætta sig við það vildu þeir halda krónunni.

Hvað dollarinn varðar minnti Hinds á að hægt væri að fá lánaða dollara út um allan heim. Þannig hefði Seðlabanki Bandaríkjanna ekkert um það að segja hvort Ísland tæki upp Bandaríkjadal sem lögeyri eða ekki. Þessu væri þó ólíkt farið með Seðlabanka Evrópu, sem væri opinberlega eindregið á móti því að þjóðir taki upp evru án samráðs og samþykkis bankans og aðild  að Evrópusambandinu. Aðspurður um evruna sagðist Hinds í sjálfu sér ekkert hafa á móti evrunni sem gjaldmiðli. Hins vegar fylgdu henni ströng skilyrði og allt því sem fylgir aðild að Evrópusambandinu. Hinds sparaði ekki stóru orðin þegar hann lýsti skoðunum sínum á Evrópusambandinu og sagði sambandið vera skrifræðismartröð (e. beurucracy nightmare).

Hinds sagðist hafa þá skoðun að Bandaríkjadalur væri sú mynt sem hentaði Íslandi hvað best, sérstaklega í ljósi þess hversu mikið af hrávörum landið flytur út en þær eru allar verðlagðar í dollurum. Hann sagði þó að vissulega mætti skoða aðra gjaldmiðla, s.s. evru eða Kanadadal.