Í úttekt sem Íbúðalánasjóður hefur unnið kemur fram að vaxtabætur nýtast síst þeim efnaminnstu á húsnæðismarkaðnum. 90% af vaxtabótum fara til efnameiri helmings þjóðarinnar að því er kemur fram í nýrri úttektt sem unnin er af Hagdeild Íbúðalánasjóðs.

„Þetta skýtur nokkuð skökku við þar sem fyrstu kaupendur verja að jafnaði meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað en aðrir fasteignareigendur. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að hjálpa fyrstu kaupendum, sem hafa átt undir högg að sækja vegna mikilla hækkana fasteignaverðs en samkvæmt úttektinni nýtast vaxtabætur þessum hóp ekki sem skyldi,“ segir í tilkynningunni en Ólafur Heiðar Helgason mun kynna úttektina á opnum fundi Íbúðalánasjóðs í dag. Fundurinn verður haldinn undir yfirskriftinni Vaxta- og húsnæðisbætur: getum við gert betur?

Þá segir jafnframt að 4,6 milljarðar hafi verið greiddir úr ríkissjóði í formi vaxtabóta í fyrra og jafngildir það um fimmtungi alls opinbers húsnæðisstuðnings. Að þegar vaxtabótakerfinu hefi verið komið á fót hafi yfirlýstur tilgangur þess verið að styðja tekjulægri hópa. Þ.e.a.s. vaxtabæturnar áttu að renna til þeirra sem greiða hlutfallslega mikið af tekjum sínum í vexti af íbúðalánum. Þetta hefur ekki gengið eftir á síðustu árum, en sem dæmi um þetta þá renna um 70% vaxtabóta nú til fólks eldra en 36 ára.

Þá kemur fram í úttektinni að ýmsir neikvæðir hvatar séu byggðir inn í vaxtabótakerfið sem þurfi að breyta. Til dæmis getur það í  sumum tilfellum haft neikvæð nettóáhrif að greiða inn á húsnæðislán. Þó að lækkun höfuðstóls leiði vissulega til lægri vaxtagreiðslna þá dugir það ekki alltaf upp á móti skerðingum sem fólk verður um leið fyrir á fjárhæð vaxtabóta.