Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) sagði í ræðu sinni á aðalfundi samtakanna sem nú stendur yfir að meginástæða þess að vaxtastefna Seðlabankans hefur ekki virkað er vafalaust sú, hve auðvelt hefur verið að sækja fjármagn á alþjóðlega markaði.

„Hinir himinháu vextir virka eins og sleggja á atvinnulífið og undan henni geta fyrirtæki ekki vikið sér nú með sama hætti og við átti, þegar aðgangur var greiður að ódýru erlendu lánsfé. Við slíkar aðstæður þarf verulega lækkun vaxta, en hér er þveröfugt farið að. Því stefnir í mikla erfiðleika í atvinnulífinu, ef ekki rofar til á erlendum fjármálamörkuðum,“ sagði Ingimundur.

Þá sagði Ingimundur að þrátti fyrir að SA hefði árið 2001 verið fylgjandi þeirri ákvörðun að taka upp formlegt verðbólgumarkmið með fljótandi gengi krónunnar, hefðu verið uppi efasemdir um þá skipan.

Hann sagði að á sínum tíma hefði verið á það bent að tenging við myntsvæði gæti tryggt varanlega stöðugt gengi gagnvart helstu viðskiptalöndum, dregið úr viðskipta- og fjármagnskostnaði, hvatt til aukinna milliríkjaviðskipta og ekki síst lækkað vexti. Reynslan skæri úr um það, hvort flotgengisstefna væri hagfelldur kostur fyrir íslenskt atvinnulíf eða hvort stefnan yrði of dýru verði keypt og framtíðarskipan í peningamálum hér á landi fælist í myntsamstarfi.

„Það þarf því engum að koma á óvart, að Samtök atvinnulífsins hafi á síðasta ári beint því til aðildarsamtakanna að taka gjaldmiðilsmálið til sérstakrar umræðu og leggja mat á það, hvort einstökum atvinnugreinum kynni að vera betur borgið með öðrum gjaldmiðli en krónunni. Eru vonir við það bundnar, að sú umræða og aðild samtakanna að Evrópunefnd ríkisstjórnarinnar leiði menn til niðurstöðu um farsæla skipan mála,“ sagði Ingimundur.