Margir af ríkustu einstaklingum Bandaríkjanna hafa brugðist við fjármálakrísunni með því að kaupa sér gull og í einstaka tilvikum í töluverðu magni.

Þannig hafa þeir flutt fjármagn sitt úr bankakerfinu eftir því sem viðmælendur Reuters fréttastofunnar greina frá.

Það er helst óttinn við tvöfalt hrun fjármálastofnana sem hefur ýtt undir þá ákvörðun fjárfesta að færa lausafé sitt út úr bankakerfinu yfir í hrávörur og hlutabréf námufyrirtækja.

Josef Stadler, yfirmaður hjá UBS bankanum í Sviss staðfestir í samtali við Reuters að efnasterkir einstaklingar séu í töluverðu magni að kaupa sér gull, ekki unnið gull heldur í mörgum tilvikum gullstangir. Þá kemur fram að UBS hafi ráðlagt efnasterkum viðskiptavinum sínum að fjárfesta hluta auðæfa sinna í gulli.

Verð á gulli er nú í hámarki en á mörkuðum vestanhafs í dag var únsan af gulli á 1.317 Bandaríkjadali.

Þá segir Stadler að til sé dæmi um einstaklinga sem keypt hafi töluvert magn af gullstöngum og flutt í örugga geymslu. Þannig segir hann sögu af hjónum sem keyptu bílhlass af gulli að verðmæti 42 milljóna dala.

Sjá nánar á vef Reuters.