Vorið 2017 barst þýsku fréttamönnunum Oliver Schröm og Christian Salewski USB-lykill með lagalegum skjölum og innri samskiptum og skjölum banka, vogunarsjóða og alþjóðlegra ráðgjafafyrirtækja sem sérhæfa sig í skattamálum. Í þeim voru ummerki um víðtæk skattaundanskot og skattsvik, svokölluð „cumex“ viðskipti. Í ljós átti eftir að koma að svikamyllan teygði anga sína milli landa og heimsálfa, og margir stærstu og þekktustu bankar heims tengdust þeim beint eða óbeint.

Schröm og Salewski áttuðu sig hins vegar fljótt á að þeir máttu sín lítils gagnvart svo umfangsmikilli starfsemi, þeir höfðu hvorki þekkingu né tengiliði á skattalöggjöf og fjármálakerfum flestra þeirra landa sem um ræddi. Þeir hófust því handa við að setja saman alþjóðlegt teymi 38 fréttamanna frá 19 fréttastofum í 12 löndum, sem saman fór í gegnum 180 þúsund blaðsíður af efni. Rannsókn þeirra lauk nú fyrir stuttu og niðurstöðurnar voru birtar, og óhætt er að segja að þær séu vægast sagt sláandi. Þeim reiknast til að samanlagt tap ríkissjóða þeirra landa sem um ræðir sé yfir 55 milljörðum evra, sem samsvarar yfir 7.500 milljörðum íslenskra króna. Skattsvikin eru því þau umfangsmestu í evrópskri sögu.

Fyrst bent á vandann árið 1992

Árið 1992 varaði embættismaður hjá fjármálaráðuneyti þýska fylkisins Hesse fyrstur manna við þessum viðskiptum, en þýska fjármálamiðstöðin Frankfurt er í Hesse. Samtök þýskra banka gerðu fjármálaráðuneyti þýskalands síðan viðvart um möguleikann á tvöföldum endurgreiðslum árið 2002 og lögðu fram tillögu að lausn. Fimm árum síðar var tillagan leidd í lög orðrétt.

Innanbúðarmaður sem lengi var hluti af þeim alþjóðlega hring sem stóð á bak við viðskiptin gaf sig fram nýlega og samþykkti að vinna með skattayfirvöldum, og ræða við fjölmiðla, í skiptum fyrir lagalega friðhelgi og nafnleynd. Fréttamannateymið kallar hann „Frey“ í umfjöllun sinni. Hann segir lagabreytinguna árið 2007 hafa haft allt annað en tilætluð áhrif, og umfang cum-ex viðskipta margfaldast í kjölfarið. Frey segir þýska skattalöggjöf orðna svo flókna að meira að segja höfundar hennar skilji hana ekki. Sé breytinga þörf, leiti löggjafinn því til skattaráðgjafa, en í því felist gríðarlegur hagsmunaárekstur. Hann segist hafa bundið enda á veislu mjög valda- og áhrifamikils ríks fólks, og samþykki því aðeins sjónvarpsviðtal með því skilyrði að hann sé gerður óþekkjanlegur.

Frey segir hlutabréfamiðlara hjá bandarískum fjárfestingabanka hafa uppgötvað viðskiptin fyrir slysni. Hann hafði keypt hlutabréf sem áttu að afhendast eftir fjóra daga. Innan þess tímabils greiddi fyrirtækið hluthöfum sínum arð, sem er skattlagður í því landi sem fyrirtækið er skráð í, en í mörgum löndum geta hluthafar fengið skattinn endurgreiddan, að vissum skilyrðum uppfylltum. Miðlarinn stóð óvænt uppi með þessa skattaendurgreiðslu, sem hljóðaði upp á 50 milljónir punda, án þess að hafa fengið hlutabréfin afhent. Hann leit ekki á peningana sem sína eigin, enda hafði hann ekkert gert til að afla þeirra, og setti sig í samband við seljanda bréfanna, en sá hafði einnig fengið skattaendurgreiðslu. Hann leitaði þá á náðir lögfræðideildar bankans, sem leitaði utanaðkomandi ráðgjafar skattalagasérfræðinga, til að komast að því hvernig bankanum bæri að skila peningunum til skattayfirvalda. Svarið var hins vegar á þá leið að peningarnir væru einfaldlega eign bankans. Þar sem hvergi væri sérstaklega tekið fram í lögum að aðeins einn mætti þiggja slíka endurgreiðslu fyrir ein og sömu viðskiptin, hlytu greiðslurnar að vera löglegar. Miðlarinn hélt því peningunum eftir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .