Þegar Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel er spurð að því hvernig hún hafi leiðst út í stjórnarstörf segist hún hafa verið hvött til þess að gefa kost á sér í stjórn Marel á aðalfundi 2010.

„Ég hafði á þeim tíma ekki velt stjórnarsetu sérstaklega fyrir mér en ákvað að slá til. Þar réð mestu að mér fannst Marel einstaklega áhugavert félag í alþjóðlegri sókn. Þarna vaknaði áhuginn á viðfangsefninu, á stjórnarháttum og vangaveltum um hvað sé góð stjórn. Ég hef verið einstaklega lánsöm og fengið tækifæri til að taka þátt í starfi margra frábærra félaga á þessum tíma.

Fyrir mér er mikilvægt að hafa brennandi áhuga á starfsemi félaganna sem ég sit í stjórn í. Með tímanum hefur sýnin orðið skýrari hvað það varðar. Maður lærir að þekkja sjálfan sig betur með árunum og í gegnum ólík verkefni. Ég veit nú að ég hef til dæmis mun meiri áhuga á að lesa mér til um mér þróun á fæðuframleiðslu í heiminum heldur en þróun á afleiðuviðskiptum.“

Forréttindi að vinna með mismunandi félögum

Ásthildur telur sig heppna að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í verkefninu Samráðsvettvangur um aukna hagsæld Íslands á sínum tíma. „Það má segja að þar hafi áhuginn á hinum svokallaða alþjóðageira rammast inn í huga mér. Með alþjóðageira á ég við fyrirtæki sem eru í alþjóðlegri samkeppni og byggja verðmætasköpun sína að mestu á hugviti og þekkingu. Ég er sannfærð um að þarna liggi helstu tækifæri íslensks atvinnulífs.

Það eru forréttindi að fá að vinna með félögum á mismunandi þroskastigum í þessum geira, kynnast uppgangi frumkvöðlafyrirtækjanna í Frumtaki, taka þátt í mótun alþjóðlegs leiðtoga í orku- og árangursstjórnun í skipum með Marorku og áframhaldandi sókn Marel á sínum mörkuðum. Það hefur líka verið mjög áhugavert að fá að taka þátt í ótrúlegri uppbyggingu ferðaþjónustunnar á Íslandi og vexti leiðakerfis Icelandair í stjórnarstarfinu hjá Icelandair Group.“

Ítarlegt viðtal við Ásthildi er í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .