Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, keypti í dag 40 þúsund hluti í móðurfélaginu Festi á 9,6 milljónir króna. Kaupgengið í viðskiptunum var 239 krónur á hlut en gengi Festi hefur hækkað um 6% frá áramótum. Í tilkynningu til Kauphallarinnar er ekki tekið fram hvað Hinrik á marga hluti í kjölfar viðskiptanna.

Festi birti ársuppgjör 2021 fyrir rúmri viku síðan en þar kom fram að afkoma dótturfélaganna N1, Krónunnar og Elko hafi verið sú besta frá upphafi. Festi hagnaðist um 5 milljarða og stjórn félagsins mun leggja til á aðalfundi að greiddir verða út 1,6 milljarðar króna í arð vegna síðasta rekstrarárs.