Engar eignir voru til upp í rétt tæplega 560 milljóna króna kröfur í þrotabú félagsins Sur ehf. Félagið var stofnað árið 2007 og átti atvinnuhúsnæði í útleigu í Garðabæ, s.s. við Lyngás og Skeiðarás. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 7. desember árið 2011. Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúinu lauk á Þorláksmessu á nýliðnu ári.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2009, sem var síðasta uppgjörið sem Sur ehf skilaði nam tap félagsins 75 milljónum króna. Verðmæti eigna við lok ársins nam tæpum 440 milljónum króna. Þar af var bókfært virði fasteigna um 387 milljónir króna. Á sama tíma námu skuldir félagsins tæpum 835 milljónum króna. Þar af voru langtímaskuldir tæpar 730 milljónir króna. Eigið fé félagsins var af þessum sökum neikvætt um næstum 400 milljónir króna í lok árs 2009.

Hirti tekjurnar en greiddi ekki af lánum

Helsti lánardrottinn Sur ehf var sparisjóðurinn Byr. Skiptastjóri Sur ehf segir í samtali við VB.is að svo virðist sem eigandi félagsins hafi hvorki greitt af lánum né fasteignagjöld í Garðabæ um nokkurra ára skeið en hirt leigutekjurnar á sama tíma. Þær námu rúmum 20 milljónum króna. Á endanum hafi verið samið við hluthafa Sur ehf að Byr, sem nú er kominn inn í Íslandsbanka, eignaðist fasteignir félagsins. Eftir situr Garðabær, sem á veð í fasteignunum.