Ritstjórnir fjölmiðla ákváðu – þrátt fyrir fjölmargar tilraunir til að kynna málstað minn og framlag til þess að fylgja eftir áframhaldandi breytingarkröfu innan Framsóknar og í þjóðfélaginu almennt – að sitja hjá. Ég er hissa á því.

Þetta segir Talsmaður Neytenda, Gísli Tryggvason, í pistli á heimasíðu sinni en sem kunnugt er hafnaði Gísli í 5. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Kópavogi um nýliðna helgi. Gísli hafði stefnt á 1. sæti listans en Ómar Stefánsson, núverandi oddviti Framsóknar, sigraði nokkuð örugglega með um 40% atkvæða.

„Alveg mistókst að fá viðtal við mig,“ segir Gísli á síðu sinni.

„Einnig fór fyrir ofan garð og neðan hvatning til þess að gerð yrði fréttaskýring um menn og málefni eða þvíumlíkt um prófkjörið eða oddvitaáskorunina.“

Gísli mun falla alveg af listanum en hann ákvað nýlega, sem formaður laganefndar Framsóknarflokksins, að beita sér fyrir þeim reglum að efstu 6 sæti listans yrðu skipuð kynjunum til helminga. Gísli segist vera stoltur af þessum reglum, hann sé ekki bara femínisti í orði heldur á borði.

Hvað skort á fjölmiðlaumfjöllun varðar segir Gísli að fjölmiðlar hafi veitt öðrum prófkjörum nokkra athygli, t.a.m. nýlegt oddvitakjör Framsóknarflokksins í Reykjavík.   „Er Kópavogur ekki nógu spennandi hjá fjölmiðlum?,“ spyr Gísli á síðu sinni.

„Ég reyndi allar eðlilegar leiðir til þess að fá umfjöllun og er hvorki óþekktur né sambandslaus og get því helst skýrt þetta með hefðbundinni klisju um að það, sem gerist í póstnúmerum 200 og hærra, sitji á hakanum.“

Þá segir Gísli loks að hann muni nú aftur snúa að fullu í starf sitt, eftir að hafa aðeins sinnt því undanfarnar vikur í „kyrrþey“ eins og hann orðar það á síðu sinni.

Sjá pistil Gísla í heild sinni