Hagnaður af starfsemi Hitaveitu Suðurnesja (HS) á fyrri helmingi ársins nam 979 milljónum króna. Um er að ræða 67% minni hagnað en á sama tímabili í fyrra, en þá var afkoma HS jákvæð um tæpa þrjá milljarða.

Rekstrartekjur HS aukast um 18% og námu tæpum fjórum milljörðum. Í tilkynningu félagsins segir að þá aukningu megi fyrst og fremst þakka auknum tekjum af raforkusölu til stóriðju og hækkandi álverðs. Veikt gengi íslensku krónunnar styður einnig við tekjuaukninguna vegna tengingarinnar við álverð á heimsmarkaði.

Eiginfjárhlutfall HS hefur haldist nánast óbreytt frá áramótum og er nú 53,5%. Við áramót var hlutfallið 54,5%. Efnahgsreikningur félagsins stækkar mikið milli ára, og er þar að þakka endurmati á eignum félagsins, svo sem virkjunum, dreifikerfi og fasteignum til gangvirði.

Stærstur hluti skulda HS er í erlendum gjaldeyri , og skuldastaða félagsins hækkar um 7,6 milljarða milli ára. Af 24,3 milljarða heildarskuldum HS nema skammtímaskuldir 4,3 milljörðum. Handbært fé HS minnkar um 90% milli ára og nemur nú tæpum 20 milljónum króna.