Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) segist ekki hafa áhuga á að sjá Stein Loga Björnsson í stjórn Icelandair. Þetta skrifar hann í færslu á Facebook eftir að Steinn Logi setti í loftið framboðssíðu fyrir stjórnarkjörið .

„Steinn Logi er fyrrum forstjóri Bláfugls og hefur verið ráðgjafi núverandi eigenda eftir eigendaskiptin. Flestum er kunnugt um hvernig aðfarir tíðkast hjá því flugfélagi gagnvart starfsfólki,“ skrifar Jón Þór. FÍA stefndi Bláfugli fyrir Félagsdómi í síðustu viku vegna uppsagna á öllum ellefu flugmönnum FÍA sem störfuðu hjá fraktflugfélaginu undir lok síðasta árs. Eftir að uppsagnirnar komu til framkvæmda voru sjálfstætt starfandi flugmenn hjá Bláfugli fjörutíu talsins.

Jón Þór rifjar einnig upp 190 milljóna króna sekt sem Icelandair hlaut frá Samkeppniseftirlitinu árið 2007  fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína eða á þeim tíma þegar Steinn Logi var framkvæmdastjóri flugfélagsins.

„Fleira væri hægt að taka til en það er óþarfi,“ segir í lok færslu Jón Þórs.

Ekki hrifinn af MAX vélunum

Steinn Logi var gestur Stefáns Einars Stefánssonar í viðtalsþættinum Dagmál , á vegum Morgunblaðsins, sem fór í loftið í morgun. Þar lét Steinn Logi meðal annars eftir sér að rekstrarkostnaður Icelandair væri enn of hár og að leita verði leiða til að lækka hann.

Hann vill einnig endurskoða flotamál flugfélagsins en mikilvægt sé að byggja upp einsleitan flota sem tryggi lágmörkun kostnaðar og dragi úr óþarfa flækjustigi.

„Ég var aldrei mjög hrifinn af þeirri ákvörðun að taka Maxinn og fannst hún ekki endilega góð,“ segir Steinn Logi. Hann bætir við að MAX vélarnar geti ekki verið framtíðarkostur fyrir félagið því þær geti ekki þjónað öllu leiðakerfi Icelandair.

Spurður út í hvaða möguleika félagið hafi í flotamálum til framtíðar segist hann þykja Airbus A321XLR vélarnar augljós kostur og bætir við að þær geti hentað í flotanum samhliða A320 Airbus vélunum. A321XLR vélarnar yrðu þá nýttar á fjarlægustu flugvellina en A320 í styttri Evrópuflug.

Sitjandi stjórnarmenn segja mikilvægt að halda óbreyttri stjórn

Guðmundur Hafsteinsson, sem situr í stjórn Icelandair, sagði við Fréttablaðið , sem kom út í morgun, að það væri „alls ekki best fyrir félagið að skipta út fólki á þessum tímapunkti.“ Mörk krefjandi verkefni séu framundan sem búið er að undirbúa vel og mikilvægt að haldið sé vel utan um á næstu mánuðum og árum. Guðmundur segir að stjórnin þurfi svigrúm til að horfa langt fram í tímann.

Bandaríkjamaðurinn John Thomas, sem tók sæti stjórn Icelandair fyrir rúmu ári, tók í svipaðan streng í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir viku síðan . „Við erum að taka ákvarðanir sem munu hafa áhrif á fyrirtækið næstu árin. Almennt er það því álitið æskilegt að stjórnarfólk sé enn starfandi þegar þau áhrif fara að koma fram,“ sagði Thomas. Honum finnist einnig sérstakt að vera aðeins kjörinn til eins árs í senn en í flestum stjórnum erlendis sé skipunin til að lágmarki fimm ára í senn.