Sagnfræðingar hafa skoðað skattaskýrslur Hitlers frá því áður en Hitler tók við kanslaraembættinu árið 1933. Á þeim er ekkert mark takandi. Bréfaskipti milli Hitlers og skattyfirvalda sýna að Hitler var skattsvikari.

Stuttu eftir að hann varð kanslari lét hann setja lög um að hann væri undanþeginn sköttum. Hitler hafði tekjur af ýmsu öðru. Hann fékk gjafir og greiðslur frá þýskum fyrirtækjum, sem áttu allt undir honum. Hann fékk höfundagreiðslur af myndum eftir sig og myndum af sér.

Til að mynda fékk hann greiðslur vegna frímerkis sem gefið var út með mynd af foringjanum. Skilin milli einkafjármála Hitlers, ríkiskassans og flokkssjóðsins voru afar óljós.

Erfitt er að henda reiður á hversu miklar eignir Hitlers voru þegar hann lést. Þær eru taldar nema að minnsta kosti 5,5 milljörðum dala á núverandi verðlagi eða um 715 millj­örðum króna.

Hitler átti innistæður m.a. í svissneska UBS bankanum. Vegna svissneskra reglna um bankaleynd er ekki vitað hvað varð um lungann af þessu fé, en gera má ráð fyrir því að að minnsta kosti einhver hluti fjárins liggi enn á sofandi svissneskum bankareikningum.

Nánar er fjallað um málið í tímaritinu Áramót sem kom út 30. desember síðastliðinn. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .