Adolf Hitler varð kanslari Þýskalands 30. janúar 1933, eða fyrir 90 árum síðan.

Paul von Hindenburg, forseti Þýskalands, útnefndi Hitler kanslara. Hindenburg hafði haft mikinn fyrirvara á Hitler. Talið er að heilsuleysi Hindenburg hafi haft áhrif á dómgreind hans þegar hann skipaði Hitler.

Hindenburg lést í ágúst ári síðar og þá lagði Hitler forsetaembættið niður og tók sér titilinn ríkiskanslari og foringi. Þar með var Hitler orðinn einræðisherra í landinu.

Hliðið í Dachau. Vinnan gerði fanganna ekki frjálsa. Þeir voru niðurlægðir, pyntaðir og drepnir.
Hliðið í Dachau. Vinnan gerði fanganna ekki frjálsa. Þeir voru niðurlægðir, pyntaðir og drepnir.

Dachau settar á stofn nokkrum vikum síðar

Innan við tveimur mánuðum eftir valdatökuna voru Dachau fangabúðirnar settar á stofn, eða 22. mars. Bærinn Dachau er aðeins 16 km norð-vestur af Munchen.

Yfirskyn Dachau var betrunarhús fyrir kommúnista, sósíalemókrata og aðra stjórnarandstæðinga.

Þótt dæmi séu um að gyðingar hafi verið myrtir í búðunum strax á fyrstu mánuðunum liðu nokkur ár þar til gyðingar voru skipulega sendir í fangabúðir og útrýmingabúðir og drepnir.

Nasistar drápu 19 milljónir manna

Talið er að Nasistar hafi drepið yfir 19 milljónir manna á árunum 1933-1945, þar af um 6 milljónir gyðinga.

Hitler framdi sjálfsmorð í lok april 1945 þegar Rússar og Bandamenn voru næstum búnir að taka yfir alla Berlínarborg.

Eru þeir Hitler og Jósef Stalín taldir vera verstu einræðisherrar í sögu Evrópu.

Stalín er talinn bera ábyrgð á dauða yfir 40 milljóna manna, en hann var valdamesti maður Sovétríkjanna frá 1924 til 1953 þegar hann lést.

Aðeins Maó Zedong formaður kínverska kommúnistaflokksins er talinn bera ábyrgð á dauða fleiri manna í sögunni, eða yfir 45 milljónum manna. Hann sat í embætti frá 1943 til 1976.