Næsti sólarhringur mun að líkindum hafa mikla þýðingu fyrir grískan efnahag, en í dag munu leiðtogar evruríkjanna hittast á neyðarfundi í Brussel til þess að ræða skuldastöðu landsins.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, lagði fram nýjar umbótatillögur fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Seðlabanka Evrópu og lánveitendur innan Evrópusambandsins í gær. Næsta afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er á gjalddaga 30. júní næstkomandi.

Semjist ekki fyrir þann tíma er líklegt að ríkissjóður Grikklands fari í greiðsluþrot og mun landið jafnvel hrökklast úr evrusamstarfinu. Tsipras mun eiga fundi með fulltrúum lánveitendanna nú kl. 09 áður en hann hittir svo hina átján leiðtoga evruríkjanna.