*

laugardagur, 11. júlí 2020
Fjölmiðlapistlar 16. september 2018 13:43

Hjá hinu opinbera

Að Kolbrún Sævarsdóttir dómari í máli Sigurplasts hafi komið að úrskurði Fjölmiðlanefndar ber vott um dómgreindarleysi og ömurlega stjórnsýslu.

Andrés Magnússon
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í máli Sigurplasts sem Fjölmiðlanefnd tók fyrir umfjöllun um á Hringbraut.
Haraldur Guðjónsson

Hér var í liðinni viku meðal annars fjallað um sérkennilega úrskurði Fjölmiðlanefndar vegna þáttar á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um gjaldþrot Sigurplasts, þar sem Fjölmiðlanefnd fann með beinum hætti að efnistökunum, svo kalla má beina íhlutun í ritstjórnarlegt frelsi.

Þegar úrskurðurinn (sem er furðuýtarlegur) er lesinn nánar kemur fleira skrýtið í ljós. Þar er sérstaklega vikið að gagnrýni, sem fram kom í þættinum, á störf Gríms Sigurðssonar, skiptastjóra Sigurplasts, en af úrskurðarorðunum virðist augljóst að athugun nefndarinnar var gerð fyrir kvörtun frá honum. Eðli máls samkvæmt er þar vísað til gjaldþrotamálsins og m.a. fundið að því að í þættinum hafi ýmsar niðurstöður héraðsdóms ekki verið að fullu kynntar.

Þetta bendir til þess að nefndarmönnum sé ekki að fullu kunnugt um starfshætti fjölmiðla eða hlutverk þeirra. Dómar skipta vissulega máli, en þeir eru ekki óskeikulir (líkt og áfrýjunarleiðir staðfesta) og umræddur þáttur fjallaði einmitt um það að sumir telja að rangindi hafa verið uppi í málinu.

Það er afar mikilvægt í frjálsu samfélagi, að þeir sem telja sig hafa orðið fyrir óréttlæti geti tjáð sig um það. Jafnvel þó svo allir heimsins dómstólar hafi verið á öðru máli. Og það er ekki Fjölmiðlanefndar að grafa undan því. Eða segja ritstjórnum fjölmiðla fyrir verkum.

Hálfu einkennilegra er þó, að þennan úrskurð Fjölmiðlanefndar, undirritar m.a. annarra Kolbrún Sævarsdóttir, héraðsdómari í Reykjavík, sem þar situr í nefndinni skv. tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Við það væri ekkert athugavert, nema vegna þess að þessi sama Kolbrún Sævarsdóttir kvað upp dóminn í máli Sigurplasts, þessa sama máls og verið er að gera athugasemdir við. Og dómarar eiga ekki frekar en aðrir að gerast dómarar í eigin sök.

Hér skulu ekki bornar neinar brigður á dóm Kolbrúnar eða lagt efnislegt mat á gjaldþrotamál Sigurplasts, en þessi úrskurður Fjölmiðlanefndar vegur að ritstjórnarfrelsi í landinu. Það að Kolbrún skuli hafa komið að honum (orðfæri og efnistök benda til þess að þar hafi löglærð manneskja ráðið ferðinni) ber bæði vott um dómgreindarleysi hennar og ömurlega stjórnsýslu nefndarinnar.

                                                                ***

Það er ekki í fyrsta sinn, sem opinber stjórnsýsla varðandi nefndina er sérkennileg. Á sínum tíma skipaði þannig menningarmálaráðherra nefnd til að gera skýrslu um bætt rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Nú var sérstakt, að í nefndina var m.a. skipaður framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, Elfa Ýr Gylfadóttir, þó ljóst mætti vera að umfjöllunarefnið gat hæglega skarast við störf hennar, en á vef Fjölmiðlanefndar kemur m.a. fram að nefndin telur að auka beri eftirlitshlutverk hennar og umsvif, einkum gagnvart fjölmiðlum í einkageiranum.

Nefndin gerði tillögur um úrbætur, sem nokkra athygli vöktu á sínum tíma. Þær fólu m.a. í sér:

  • RÚV af auglýsingamarkaði
  • Vsk. á rafrænni miðlun 11% 
  • Áfengis og tóbaksauglýsingar leyfðar 
  • Endurgreiðslu á hluta framleiðslukostnaðar fréttaefnis 
  • Gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum

Um tillögurnar voru skiptar skoðanir, en jafnframt kom fram að í sjálfri nefndinni var ekki einhugur um þær allar. Þar var framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar í minnihluta. Meðal annarra, sem efasemdir virtust hafa um tillögurnar var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, svo hún brá á það óvenjulega ráð, að eftirláta Fjölmiðlanefnd að fara yfir tillögurnar og gera nýjar. Minnihlutinn í nefndinni fékk sem sagt sjálfdæmi um hvernig ætti að fara með niðurstöðu meirihlutans í nefndinni!

Nú er það göfugt og kristilegt viðhorf, að hinir síðustu verði fyrstir, en þessi vinnubrögð eiga ekkert skylt við góða eða óháða stjórnsýslu. Alls ekki neitt.

                                                                ***

Í gær kynnti Lilja menningarmálaráðherra svo áform sín, sem virðast mikið miðast við minnihlutaálitið. Hún sagði að bæta ætti rekstrarumhverfi íslenskra fjölmiðla, en í því felst helst, að endurgreiða á hluta ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla um 20-25%, lækka virðisaukaskatt á rafrænar áskriftir, samræma skattlagningu á auglýsingum við það sem erlendir netmiðlar búa við og draga úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði.

Áætlað framlag úr ríkissjóði vegna þessa yrði um 350 milljónir króna á ári, en leggja á fram lagafrumvarp um það eftir áramót og miðað við að endurgreiðslur geti hafist þegar árið 2019. Búist er við því að samkeppnistekjur RÚV dragist saman um 560 milljónir á ári.

                                                                ***

Fljótt á litið eru þetta ekki góðar fréttir. Með þessu væri ekki verið að bæta rekstrarumhverfið, heldur beinlínis verið að reyna að skakka leikinn með fjármunum skattgreiðenda. Skekkja rekstrarumhverfið. Um leið er verið að gera frjálsa fjölmiðla háða velvild stjórnvalda. Og hvers vegna ættu rafrænir miðlar einir að njóta lægra virðisaukaskattþreps, þegar fyrir liggur að helsti munur á samkeppnisaðstöðu fjölmiðla að því leyti er milli áskriftarmiðla og frímiðla?

Skilyrði fyrir endurgreiðslunni eru sögð verða skýr og bundin við hámark: „Styrkveitingar verða fyrirsjáanlegar, óháðar tæknilegri útfærslu og mynda ekki hvata til þess að fara fram hjá kerfinu né skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla.“ Erfitt er að sjá hvaða reiknireglum verður beitt við það, því fréttaframleiðsla er mjög misdýr eftir gerð fjölmiðla. Hið sama á við um dreifinguna, sem ekki á að styrkja.

Miðað við þá fjármuni, sem ætlað er til endurgreiðslna, blasir við að þar ræðir um afar takmarkaðar niðurgreiðslur á mjög afmörkuðum útgjaldaþáttum. Samkvæmt Hagstofunni námu tekjur fjölmiðla um 27 milljörðum króna árið 2016 og voru þeir þó fæstir reknir með hagnaði. 350 milljóna króna endurgreiðslur miðað við 20% framleiðslukostnaðar benda til þess að aðeins 1.750 milljónir króna útgjaldanna komi þar til greina við umsóknir.

Ef við gefum okkur af nokkurri bjartsýni, ef ekki afneitun, að rekstur fjölmiðla sé við núllið þá ræðir þar aðeins um 6,5% útgjalda en ef fimmtungur hans er samþykktur þá ræðir þar um 1,3%. Það sér hver maður, að það mun tæplega ráða baggamun um bætt rekstrarumhverfi.

Þá er hin leiðin eftir, að það yrði komið á sjóði, sem sækja þyrfti um endurgreiðslur til vegna tiltekins kostnaðar við afmarkaða verkþætti eða afmörkuð verkefni. Þá kæmi í hlut stjórnvalda að velja verðuga og óverðuga. Hverjir myndu annast það? Stjórnmálamenn eða títtnefnd Fjölmiðlanefnd, sem hefur mjög óheilbrigðar hugmyndir um afskipti hins opinbera af fjölmiðlun í landinu?

Við verðum að vona ekki, að nýja fína lausnin snúist ekki um afturhvarf til sjóðahygli liðinnar aldar. Því þá gætum við eins skrúfað niður litinn í sjónvarpinu og sötrað kaffibæti alla daga.

Það virðist hins vegar vel til fundið að draga úr samkeppnistekjum RÚV, um það mun muna, bæði í Efstaleiti og annars staðar ef þær minnka um fjórðung. En þá er litið hjá því að RÚV hefur mjög sótt í sig veðrið að því leyti á síðustu árum. Mun skipta frjálsa fjölmiðla miklu að klukkan sé færð aftur um 5-6 ár að því leyti?

Nei, þessar tillögur munu sáralitlu breyta til hins betra, en full ástæða er til þess að gjalda varhug við auknum inngripum hins opinbera á fjölmiðlamarkaði.

                                                                ***

Fjölmiðlarýnir les enn eitt árið á vef Stjórnarráðsins, að nokkrir blaðamenn hafi verið tilnefndir til „fjölmiðlaverðlauna umhverfisog auðlindaráðuneytisins“, sem veitt verða nú á mánudag. Hvenær á þessari geðbilun að linna? Það er óhæfa að stjórnvöld útdeili verðlaunum til blaðamanna fyrir þóknanlega umfjöllun og raunar furða að nokkur blaðamaður með snefil af sjálfsvirðingu veiti þeim viðtöku.

Hvað þætti mönnum um ef atvinnumálaráðuneytið veitti fjölmiðlaverðlaun fyrir vandaða umfjöllun um orkunýtingu? Eða bara öll ráðuneyti fyrir þau mál, sem standa ráðherranum næst hjarta? Nei, afskipti stjórnvalda af fjölmiðlum eru miklu meira en næg fyrir.