Málverk spænska listmálarans Pablo Picasso af Doru Maar, hjákonu sinni, verður selt í New York af Sotheby's uppboðsfyrirtækinu í vor.

Búist er við að málverkið, sem nefnist Dora Maar með kött, geti verið selt á 50 milljónir Bandaríkjadala, eða rúmlega þrjá milljarða íslenskra króna.

Charles Moffett, varastjórnarformaður Sotheby's, telur málverkið á meðal þeirra bestu eftir Picasso.

"Málverkið er óumdeilanlega eitt af ótrúlegustu málverkum Picasso af konunni sem í rúmlega áratug var ástkona hans, innblástur hans og fyrirsæta hans," segir Moffett.

Málverkið hefur ekki sést opinberlega í 40 ár.