Síonisminn og Ísraelsríki byggja alla sína tilveru á goðsögnum Biblíunnar. Hugmyndir um „endurkomu“ gyðinga til Palestínu eiga eingöngu uppruna sinn í þessum sögum. Það er ímyndun að „landið helga“ væri til eilífðar frátekið fyrir útvalinn hóp manna, trúarhóp sem hafði talið sjálfum sér og heiminum trú um sannleiksgildi Gamla testamentisins, segir Hjálmtýr Heiðdal, stjórnarmaður í félaginu Ísland-Palestina.

Hjálmtýr Heiðdal.
Hjálmtýr Heiðdal.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hjálmtýr skrifar grein um málið í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins og er hún svar við grein Gísla Freys Valdórssonar, blaðamanns Viðskiptablaðsins, um Palestínu. Gísli sagði í grófum dráttum að Palestínumenn hafi aldrei ráðið eigin ríki.

Hjálmtýr segir þvert á skoðun þeirra sem ekki styðji sjálfstætt ríki Palestínumanna rannsóknir ísraelskra fornleifafræðinga undanfarin ár hafa sýnt þá niðurstöðu að frásögn Biblíunnar er röng; forn-Ísraelar voru aldrei þrælar í Egyptalandi og þeir lögðu ekki undir sig lönd Kananíta.

Niðurstaða margra ára fornleifarannsókna í Jerúsalem sýna, að sögn Hjálmtýs, að glæsilegt ríki Davíðs og Salómons var í raun aldrei til. Og Ísraelar voru ekki reknir í útlegð af Rómverjum. Þeir sendu yfirstéttir og presta í útlegð en aldrei heilar þjóðir sökum þess að með því hurfu skatttekjurnar. Allar hugmyndir um endurkomu gyðinga og landsréttindi þeirra í Palestínu byggja á Biblíunni, en hún er ekki sagnfræðirit og hefur lítið sagnfræðilegt gildi (sjá Finkelstein og Silberman: The Bible Unearthed: Archaeology’s New Vision of Ancient Israel).

Grein Hjálmtýs Heiðdal