Útgáfuréttur á DV hefur verið seldur til Dagblaðsins-Vísis útgáfufélags ehf., sem ætlar að efla og styrkja blaðið og fjölga útgáfudögum á næsta ári, segir í fréttatilkynningu. Fjölmiðlafyrirtækið 365 mun eiga 40% í þessu félagi, sem tekur við útgáfunni 1. janúar, en Hjálmur ehf. er eigandi að 49% hlut í félaginu. Aðrir eigendur eru feðgarnir Janus Sigurjónsson og Sigurjón M. Egilsson, segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að 365 miðlar hafi endurskipulagt prentútgáfu sína með það að markmiði að skerpa áherslur og auka arðsemi í rekstri 365. Fyirtækið mun á prentsviðinu einbeita sér að útgáfu Fréttablaðsins og fylgirita þess, en útgáfa annarra sjálfstæðra prentmiðla flyst annað, eftir atvikum með aðild 365. Þetta er hluti af þeirri stefnumörkun að efla kjarnastarfsemi 365 á sviði dagblaðaútgáfu, sjónvarps, útvarps og vefmiðlunar og stefna að forystuhlutverki á þeim sviðum miðlunar þar sem 365 starfar.

Tímaritin Hér & nú og Veggfóður hafa verið seld til Útgáfufélagsins Fögrudyra ehf., sem gefur út tímaritið Ísafold. Aðaleigandi Fögrudyra, Hjálmur ehf., mun jafnframt kaupa af 365 miðlum hlut í tímaritinu í Bístró, sem verður þá nokkurn veginn að jöfnu í eigu 365, Hjálms og starfsmanna Bístró.

Tímaritið Birta verður samhliða þessum breytingum fellt inn í Fréttablaðið á nýju ári.

Með þessari endurskipulagningu verða þeir prentmiðlar sem færast frá 365 framvegis reknir á eigin forsendum og 365 miðlar auka svigrúm sitt til enn frekari sóknar í rekstri og þróun dagblaða- og ljósvakamiðla, segir í tilkynningunni.