Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greindi á miðvikudag frá ákvörðun sinni um að hækka vexti bankans um eina prósentu. Stýrivextir bankans hækkuðu því úr 6,5% í 7,5%. Í yfirlýsingu nefndarinnar kemur fram að verðbólguþrýstingur haldi áfram að aukast og verðhækkanir nái til æ fleiri þátta. Verðbólga mælist nú 10,2% og undirliggjandi verðbólga sé 7,2%. „Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit er fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar.

Nefndin benti einnig á að hagvöxtur hafi verið mikill í fyrra og vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn geti staðið undir til lengdar. Þá hafi innlend eftirspurn aukist meira en gert var ráð fyrir í febrúar og vísbendingar séu um að hún hafi verið kröftugri í ársbyrjun en talið var. Jafnframt sé spenna á vinnumarkaði töluverð. „Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.“

„Hjálp frá ríkisfjárlögum vel þegin“

Ekki er minnst á þátt ríkissjóðs í yfirlýsingu peningastefnunefndar. Afkoma hins opinbera var samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar neikvæð um 161,8 milljarða króna í fyrra. Það samsvarar um 4,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársins. Til samanburðar var afkoma ársins 2021 neikvæð um 8,4% af VLF eða um 272,2 milljarða króna. Samkvæmt fjárlögum ársins 2023, sem samþykkt voru á Alþingi í lok síðasta árs, er áætlað að ríkissjóður verði rekinn með um 120 milljarða króna halla á yfirstandandi ári, eða 3% af VLF. Í byrjun næstu viku kynnir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaáætlun 2024 til 2028.

Á fundi þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðarsóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, gerðu grein fyrir ákvörðun nefndarinnar voru þau einmitt spurð út í ástæðu þess að ekki sé minnst á ríkissjóð í yfirlýsingunni, sérstaklega í ljósi yfirvofandi kynningar fjármálaáætlunar. Ásgeir sagði nefndina einblína á það verkefni sem þeim sé falið, að ná verðbólgu niður, og þau geti ekki beðið eftir neinum öðrum. „Öll hjálp sem við fáum frá fjárlögum ríkisins er vel þegin en við erum ekki að bíða eftir því. Aðrir aðilar í hagkerfinu sem hafa áhrif, eins og vinnumarkaðurinn og ríkissjóður hljóta líka að átta sig á stöðunni,“ sagði Ásgeir. Því væri „óþarfi að eyða dálksentimetrum í það“ í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Á fundinum voru Ásgeir og Rannveig einnig spurð út í hvort peningastefnunefnd hafi önnur tæki en vaxtahækkanir til að beita. Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, benti á að vaxtahækkanir hafi oft skapað úlfúð á Alþingi, sem þá hafi komið fram með þensluhvetjandi aðgerðir til að verja heimilin gegn vaxtahækkunum. Varpaði hún því fram spurningu til Ásgeirs og Rannveigar um það hvort nefndin hafi önnur tæki til að „ýta við ríkinu, til þess að fá ríkið til að spila með“.

Ásgeir sagði Seðlabankann ekki hafa nein tæki til að nota á ríkissjóð. „Seðlabankinn hefur ekki fengið þau tæki enda eru það aðeins kjósendur sem hafa þar yfirráð.“ Rannveig tók einnig til máls og kom á framfæri sinni persónulegu skoðun um að skattahækkanir gætu hjálpað til. „Eins og Ásgeir segir höfum við yfirleitt ekki sérstaka skoðun á því hvað ríkissjóður gerir eða ekki. En ef ég tala fyrir sjálfa mig held ég að það hefði hjálpað til, og myndi hjálpa til, ef gripið yrði til einhverra aðgerða á tekjuhliðinni sem virkuðu hratt og dragi þá líka úr eftirspurn. En það er nú bara mín skoðun,“ sagði hún.

Ásgeir Jónsson og Rannveig Sigurðardóttir.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)