Um 20 danskir farþegar sem áttu bókað flug með Iceland Express frá New York heim til Danmerkur með millilendingu á Íslandi eru strandaglópar í New York þar sem láðst hafði að greina þeim frá því að Iceland Express væri hætt ameríkuflugi.

Í frétt danska blaðsins BT undir fyrirsögninni "Hjálp - við erum strandaglópar í New York"segir að dönsku farþegarnir hafi komið að tómum afgreiðslubás þegar þeir mættu í flugið og annað flugvallarstarfsfólk í New York hefði heldur ekki getað veitt hjálp og ekki hafi tekist að útvega nýtt flug heim.

„Við komum á flugvöllinn um fimm- sexleytið að amerískum tíma og fengum þá að vita að ekkert okkar væri til í bókunarkerfinu. Það var mjög svekkjandi. Við skiljum ekki af hverju ekki var einfaldlega hægt að bóka okkur í annað flug," sagði einn farþeganna.

„Við höfum engar upplýsingar fengið frá Iceland Express. Þeir aflýstu bara fluginu í gær," sagði einn flugvallarstarfsmannanna við BT.

Í grein BT segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Iceland Express sé í vandræðum en að talsmenn Iceland Express hafni því að flugfélagið sé á leið í þrot og þeir taki fram að allt hafii verið gert til þess að hafa samband við dönsku farþegunum og láta þá vita. Iceland Express muni koma þeim öllum heim að kostnaðarlausu.