Þórir Garðarsson framkvæmdastjóri Allrahanda GL segir einstaka ferðaheildsala semja um verð í íslenskum krónum en almennt sé erfitt að selja þeim ferðir í myntinni og því séu ferðirnar seldar í erlendri mynt.

Eins og Viðskiptablaðið hefur talað um bjóða fjármálafyrirtækin þó upp á að verja viðskiptin með framvirkum samningum. Sum fyrirtæki hjálpa ferðaheildsölum til þess ef selja sjálfir í krónum og má þar nefna Íslenska fjallaleiðsögumenn að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Við höfum alla tíð selt í íslenskum krónum,“ segir Elín Sigurveig Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fyrirtækisins. „Í staðinn fyrir gengisáhættu verður verðið hjá okkur hátt þegar krónan styrkist, sem er auðvitað ekki kauphvetjandi.“

Fyrirtækið hefur þegar gefið út verð fyrir árið 2019. „Það er ekki óalgengt að við gefum út verð tvö ár fram í tímann. Það er stór hluti af okkar viðskiptum. Við erum því að taka áhættu í verðlagningu. Það væri óskandi að verðlagið væri stöðugra hér á landi.“

Uppfæra verðið vikulega

Þórir segir að Allrahanda GL uppfæri verð sitt í erlendri mynt í gagnabönkum ferðaheildsala vikulega. „Með þeim hætti stýrum við tekjunum,“ segir hann sem einnig hefur áhyggjur af sveiflum krónunnar. „Framlegð þeirra gæti verið á bilinu 5-15% og ef krónan fellur um 10% tapa þeir á viðskiptunum.“

Yngvi Harðarson hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica segist ekki hafa upplýsingar um að mörg fyrirtæki verji sig gegn gjaldmiðlaáhættunni, en það sé hægt að gera á tiltölulega einfaldan hátt með því að fjármagna reksturinn í helstu tekjumyntunum.