Ferðaþjónustufyrirtækið Propose Iceland var eitt af tíu fyrirtækjum sem voru valin í ferðaþjónustuhraðal Startup Iceland nú á dögunum. Fyrirtækið, líkt og nafn þess bendir til, gerir út á að bjóða ferðamönnum á biðilsbuxunum aðstoð við skipulagningu bónorðsins. Propose Iceland er samstarfsaðili hinsegin brúðkaupsþjónustunnar Pink Iceland sem hefur notið velgengni í skipulagningu brúðkaupa bæði fyrir hinsegin fólk en einnig gagnkynhneigða.

„Við erum samstarfsaðilar hér hjá Pink Iceland sem sérhæfum okkur í giftingum og erum tiltölulega þekkt vörumerki fyrir brúðkaup á Íslandi. Hugmyndin varð eiginlega til hjá tveimur starfsmönnum Pink Iceland, þeim Sigríði Hrönn Pálsdóttur og Hafþóri Óskarssyni. Við höfum verið að fá svona fyrirspurnir reglulega og fólk hefur þá sennilega hugsað með sér að þar sem við séum ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í brúðkaupum þá geti það fengið okkur til að skipuleggja fyrir sig bónorð.

Miðað við að fyrirspurnirnar voru að detta inn hjá okkur algjörlega óumbeðið og algjörlega án nokkurrar markaðssetningar eða umtals af okkar hálfu fórum við að hugsa hvað ef við myndum gera eitthvað í þessu? Setja upp heimasíðu, leitarvélabesta og fara í markaðsherferðir,“ segir Hannes Pálsson, einn eigenda Pink Iceland og Propose Iceland. Í framhaldi var ákveðið að Sigríður Hrönn og Hafþór myndu veita verkefninu forystu en úr yrði sérstakt vörumerki undir fyrirtæki í eigin rekstri.

Ástæðan að baki því fyrirkomulagi er margþætt, meðal annars til þess að gefa nýja verkefninu nægt rými til þess að vaxa en einnig til þess að halda í hinsegin vörumerki Pink Iceland.

„Það að vera hluti af nýsköpunarumhverfi er svo frjótt og gefur svo ótrúlega mikið að við ákváðum að sækja um og um leið fær þessi hugmynd það pláss sem hún á skilið. Þetta er ekki deild heldur sérfyrirtæki með eigin kennitölu og eigin rekstur en nýtur góðs af ákveðnum stuðningi, þekkingu og viðskiptasamböndum sem Pink Iceland hefur náð að mynda,“ segir Hannes en bætir við að það þurfi öðruvísi nálgun við markaðssetningu til þess að ná til markhóps Propose Iceland.