„Við erum í viðræðum við fjárfesta bæði hér heima og úti og erum að vinna í að búa til nýja útgáfu, sem kemur vonandi út fljótlega eftir áramót,“ segir Sveinn Kristjánsson frumkvöðull og stofnandi Ævi, sem var áður Ævispor. Ævi er smáforrit og hefur verið lýst sem persónulegri útgáfu af samskiptamiðlinum LinkedIn. Sveinn er nýkominn heim eftir þriggja mánaða dvöl í Silíkondalnum í Kaliforníu, þar sem hann kynnti fyrirtækið.

„Ferðin var rosalega góð. Við hittum sjóði og einstaklinga og fengum mjög góð viðbrögð við kerfinu sem við erum með. Við gáfum út endurbætta útgáfu í vor meðal annars eftir viðbrögð frá Sequioa, sem við hittum og fundum fyrir talsverðum meðbyr hjá,“ segir Sveinn.

„Appið gefur þér hugmyndir að spurningum til að spyrja þína nánustu að. Þú færð tilkynningu og hugmynd: langar þig að spyrja þennan að þessu? Sálfræðingar hjálpa okkur með spurningarnar. Þær eru flaggaðar þannig að þær eiga við um ákveðin æviskeið fólks og henta til að spyrja ákveðið fólk. Svo við erum að grípa svörin við spurningunum, grípa ævisögu fólks, og rita hana. Við setjum svörin svo á vefsíðu, sem við köllum storyboard,“ útskýrir Sveinn. Fólk getur svo ákveðið hvort það vill hafa sín svör og sínar sögur opnar öllum eða lokaðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .