Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, ræðir um nýsköpun og umhverfi geirans hér á landi í viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út á dögunum. Í viðtalinu segir hún m.a. frá hlutverki Icelandic Startups, sem hún segir í grunninn vera að aðstoða frumkvöðla við að láta drauma sína verða að veruleika.

„Við tökum á móti frumkvöðlum á hugmyndastigi og hjálpum þeim að koma vöru á markað, bæði með því að veita þeim þjálfun og fræðslu í gegnum verkefni, líkt og Gulleggið, viðskiptahraðla og með því að tengja þau við reyndari frumkvöðla, fjárfesta og leiðandi sérfræðinga innan háskólanna eða í atvinnulífinu. Það er ómetanlegt tækifæri fyrir frumkvöðla sem eru að taka sín fyrstu skref," segir Salóme, en þungamiðjan í starfi Icelandic Startups sé einmitt að vera þessi tengslavettvangur. „Um leið og frumkvöðlar fá tækifæri til að tala við þaulreynt fólk þá fer hugmynd þeirra að þróast hraðar. Auk þess eru hraðlarnir þriggja mánaða verkefni sem ganga út á að frumkvöðlar fái sem mesta endurgjöf á sem skemmstum tíma. Þannig má hraða ferlinu sem á sér stað frá því að hugmyndin kviknar þar til að varan er komin á markað."

Icelandic Startups er stærsti einkarekni stuðningsaðili fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki á Íslandi. „Félagið er ekki hagnaðardrifið og við höfum því ekki tekið eignarhluti í fyrirtækjunum sem við aðstoðum," segir Salóme. Fyrirtækið fái að jafnaði um fimm til sexhundruð hugmyndir inn á borð sitt á ári hverju í gegnum keppnir og hraðla, en aðeins 30 til 50 hugmyndir á ári hljóti brautargengi. „Fyrirtækið er fjármagnað af atvinnulífinu og með því móti höfum við getað boðið frumkvöðlum upp á þjónustu án endurgjalds," bætir hún við.

Hluthafar Icelandic Startups eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Origo. „Hluthafarnir leggja til um 5-10% af tekjum ársins en restin af starfseminni er fjármögnuð í gegnum einstök verkefni sem mismunandi bakhjarlar styðja við," segir Salóme, en að hennar sögn getur þetta viðskiptamódel verið nokkuð brothætt, eins og sýndi sig þegar Arion banki dró sig út úr samstarfi við Icelandic Startups undir lok síðasta árs. Bankinn var bakhjarl viðskiptahraðalsins Startup Reykjavík, sem var stærsta verkefni Icelandic Startups, en hraðlinum var komið á fót árið 2012.

„Þegar Arion banki dró sig út úr því samstarfi myndaðist stórt skarð í stuðningsumhverfinu. Það lá ekki strax fyrir hvað myndi verða, en Startup Reykjavík hefur reynst mjög þýðingarmikið verkefni fyrir sprotaumhverfið á Íslandi. Í kjölfarið tóku við nokkrir óvissutímar þar sem við stóðum frammi fyrir þeirri risastóru áskorun að reyna að fylla í þetta gat."

Þeirri óvissu var svo eytt snemmsumars þegar tilkynnt var um samstarf Icelandic Startups við Nova um nýjan viðskiptahraðal, Startup SuperNova, sem ætlað er að verða flaggskipið í starfsemi félagsins. Hraðallinn er stökkpallur fyrir sprotafyrirtæki og einnig einstakur vettvangur til að þróa áfram nýsköpunarverkefni innan rótgrónari fyrirtækja. „Við erum í skýjunum með samstarfið og framsýni Nova og hlökkum til næstu ára," segir Salóme en að hennar sögn var Icelandic Startups komið í hálfgert kreppuástand nokkru áður en COVID-19 faraldurinn tók sér bólfestu hér á landi.

„Í fyrrahaust var að byrja niðursveifla sem þýddi að fyrirtækin voru að rýna vel í fjármagn sitt og einnig voru miklar sviptingar í forstjórastólum stórra fyrirtækja. Við misstum því út fleiri stóra bakhjarla en Arion banka. Það má því segja að kreppan okkar hafi skollið á áður en COVID-19 mætti til landsins. Við þurftum að skera inn að beini og vorum aðeins þrír starfsmenn eftir í fyrirtækinu um áramótin, en við höfðum verið átta um sumarið. Við náðum hins vegar að vinna okkur í gegnum þessa erfiðleika og horfum björtum augum til framtíðar."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .