Landssamband bakarameistara leggja ABC barnahjálp lið nú um helgina með sölu á bakkelsi sem hlotið hefur nafnið hjálparsnúður. Fimmtán krónur af andvirði hvers hjálparsnúðs rennur til ABC barnahjálpar en sú upphæð nægir til að kosta daglega skólamáltíð handa einu barni.   Á síðustu tveimur og hálfu ári hefur ABC barnahjálp byggt fjóra skóla í Pakistan og komið á fót fjórum öðrum í leiguhúsnæði. Samtals eru í þessum átta skólum um 1800 börn. Skólarnir eru settir af stað í þeirri trú að stuðningsaðilar styðji við framtakið og hugmyndin að baki snúðaverkefninu var að finna leið til að hægt væri að gefa börnunum að borða í skólunum.

Hlutur ABC af hverjum seldum snúði nægir til að kosta skólamáltíð fyrir eitt barn. Um 150 börn eru í hverjum skóla sem rekinn er í leiguhúsnæði og vonast er til að með tímanum fái öll börnin stuðningsaðila sem greiðir kostnaðinn við skólagöngu þeirra. Á meðan börnin eru óstudd er snúðasalan ómetanleg til að hægt sé að skaffa börnunum skólamáltíðir.

Landssamband bakarameistara og ABC barnahjálp vona að þjóðin taki vel í verkefnið og að hjálparsnúður verður á borðum á hverju heimili næstu helgi.