Þekktur írskur hagfræðingur hefur skorað á írsk stjórnvöld að hóta að segja sig úr evrusamstarfinu ef ESB kemur Írlandi ekki til hjálpar, segir í frétt Daily Telegraph.

,,Það er stríð og lönd verða að geta varið sig sjálf," sagði David McWilliams fyrrverandi embættismaður hjá írska seðlabankanum.

,,Það er nauðsynlegt að við förum til Evrópu og greinum mönnum þar að við eigum við alvarleg vandamál að stríða.Við verðum að benda mönnum á að annað hvort hættum við að greiða af lánum eða við förum úr Evrópusamstarfinu," sagði McWilliams í samtali við RTE útvarpið og bætti við:

,,Ef Írland heldur áfram á núverandi braut, sem er við það að leiða til greiðsluþrots, mun það koma illa niður á allri Evrópu. Trúverðugleiki evrunar verður fyrir miklu höggi. Síðan er allt eins líklegt að Spánn, Ítalía og Grikland fylgi á eftir."

Í frétt Telegraph kemur fram að Írar eiga við gríðarlega erfiðleika að stríða og sterk evra dregur allan mátt úr írskum útflutningsgreinum. Ummælin eru talin vísbending um vaxandi vantraust gagnvart ESB á Írlandi en margir Írar telja að þeir séu látnir gjalda fyrir að hafna Lissabonsáttmálanum.