Umfang eignarhaldsfélagsins L&H, móðurfélags lyfjaverslana Lyf & heilsu, hefur aukist mikið á undanförnum misserum og um áramótin urðu breytingar á yfirstjórn félagsins sem taka mið af því, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Hrund Rudolfsdóttir sem starfað hefur sem framkvæmdastjóri Lyfja & heilsu snýr sér nú alfarið að framkvæmdastjórn móðurfélagsins, L&H. Hjalti Sölvason hefur tekið við framkvæmdastjórnarstarfi Lyfja & heilsu í hennar stað, að því er segir í tilkynningu.

Nú um áramótin fluttu höfuðstöðvar lyfjaverslana Lyfja & heilsu starfsemi sína að Bæjarhálsi 1. Einnig tók nýtt skipurit gildi hjá Lyfjum & heilsu sem felur í sér að leyfishafar í lyfjaverslunum Lyfja & heilsu heyra nú beint undir framkvæmdastjóra. Þá hefur Arnar Hallsson tekið við starfi rekstrarstjóra Lyfja & heilsu af Hjalta Sölvasyni og Rúnar Höskuldsson tekur við starfi markaðsstjóra Lyfja & heilsu.