*

fimmtudagur, 2. apríl 2020
Fólk 9. mars 2020 17:29

Hjalti tók við formennsku af Ívari

Framkvæmdastjóri hjá Marel sem kom inn í stjórn Origo sem varamaður 2017 tekur nú við stjórnarformennsku í félaginu.

Ritstjórn
Hjalti Þórarinsson, nýr stjórnarformaður Origo er efst til vinstri á myndinni af stjórn og forstjóra Origo.

Hjalti Þórarinsson hefur tekið við sem formaður stjórnar Origo af Ívari Kristjánssyni sem hefur verið stjórnarformaður frá því í desember 2016. Hildur Dungal var jafnframt kjörinn varaformaður stjórnar á fyrsta fundi stjórnarinnar í dag, en stjórnin var sjálfkjörinn á aðalfundi félagsins sem fram fór fyrir helgi.

Hjalti kom fyrst inn sem varamaður í stjórn 2017 en hann er framkvæmdastjóri í hugbúnaðardeild hjá Marel, rafmagns- og tölvunarverkfræðingur frá HÍ og með MBA gráðu frá MIT í Bandaríkjunum.

Hildur hefur verið í aðalstjórn Origo frá árinu 2011, en hún er með embættispróf í lögfræði frá HÍ, og er lögfræðingur yfirstjórnar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en áður var hún forstjóri Útlendingastofnunar auk þess að starfa um árabil hjá dómsmálaráðuneytinu.

Ívar er framkvæmdastjóri 1939 Games, einn stofnanda CCP og áður framkvæmdastjóri félagsins en lengst af fjármálastjóri hjá félaginu, en í dag er hann stjórnarformaður RVX og situr í stjórn samtaka leikjafyrirtækja innan SA. Hann er viðskiptafræðingur frá HÍ og með MBA gráðu frá HR.

Auk þeirra sitja þau Svafa Grönfeldt og Guðmundur Jóhann Jónsson í stjórn félagsins.